Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Stelpurnar búnar að vera flottar í allt sumar“
Gunnar og fyrirliðinn Natasha fara yfir málin á hliðarlínunni. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Laugardagur 3. október 2020 kl. 10:43

„Stelpurnar búnar að vera flottar í allt sumar“

Víkurfréttir tóku tal af Gunnari M. Jónssyni, þjálfara kvennaliðs Keflavíkur, eftir að ljóst var að liðið myndi leika í efstu deild að ári.

– Það var ekkert slegið af gegn Víkingi þótt sæti í efstu deild væri tryggt.

„Nei, þetta var bara tekið með stæl. Virkilega flott og gott ef þær halda þessum dampi, það getur verið erfitt þegar búið er að tryggja sér efstu deildarsæti. Þær voru rosalega flottar stelpurnar og eru búnar að vera það í allt sumar, algerlega. Góð stemmning og góður liðsandi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Það er væntanlega tilhlökkun að spila í efstu deild.

„Já, þær fengu smjörþefinn af þessu í fyrra og stelpurnar vildu ólmar komast þangað aftur. Það verður virkilega gaman að reyna sig aftur í efstu deild.“

Sigurinn gegn Haukum alger lykilsigur

„Leikurinn gegn Haukum, sem við unnum 1:0, var alger lykilleikur og úrslitin úr honum skiptu gríðarlegu máli. Við hefðum lent í mikilli spennu í lokin ef sá leikur hefði tapast en hann datt okkar megin sem var helvíti gott.“

– Þið ætlið væntanleg að halda sama dampi og vinna það sem eftir er.

„Já, það eru tveir leikir eftir og ennþá smá séns á að vinna deildina – þó ég sjái ekki fyrir að Tindastóll fari að misstíga sig eitthvað. Þær þurfa að tapa einum og gera eitt jafntefli alla vega. Þær eru öflugar líka og ég held að þetta séu langbestu liðin í deildinni – en við ætlum að enda þetta með stæl og enda tímabilið vel, það er mikið atriði.“

– Þú heldur öllum mannskap og bætir jafnvel í eða hvað?

„Það er ómögulegt að segja á þessari stundu. Það má alltaf búast við einhverjum breytingum, eins og gengur og gerist á milli ára, en nú förum við fljótlega í það að setjast niður og fara yfir málin fyrir næsta tímabil,“ sagði Gunnar að lokum.