„Grindavík er alltaf bærinn minn“ - stórsigur gegn Keflavík
Það var rafmögnuð spennan í Smáranum í kvöld og líklega uppselt, þegar Grindavík og Keflavík mættust í hreinum úrslitaleik um að komast í lokaúrslitin í Subway-deild karla. Keflvíkingar byrjuðu betur en Grindavík leiddi þó með einu stigi í hálfleik, 41-40. Í þriðja leikhluta gerðust ótrúlegir hlutir, Grindavík vann leikhlutann 40-9 og eftirleikurinn því auðveldur og öruggur sigur staðreynd, 112-63!
Blaðamanni reiknast til að einungis síðasta þriggja stig skot Grindvíkinga í þriðja leikhluta hafi klikkað, það var alveg sama um tíma hvar menn létu vaða, allt fór niður og á sama tíma komust Keflvíkingar hvorki lönd né strönd.
Það er varla hægt að taka einhvern einn Grindvíking út fyrir sviga eftir þennan stórsigur, frábær liðsheild í seinni hálfleik skóp sigurinn og greinilegt að Jóhann þjálfari hefur lætt einhverju út í te-ið þeirra í hálfleik því eftir að hafa verið taugaveiklaðir og langt frá sínu besta nánast allan fyrri hálfleikinn, kom gjörbreytt lið til leiks í seinni hálfleik.
Keflvíkingar þekkja auðvitað ekkert annað en keppa um titla og að detta út í undanúrslitum var örugglega ekki það sem þeir ætluðu sér. Samt telur blaðamaður þá vel geta unað við sitt, það hefðu ekki öll lið höndlað að missa sinn besta leikmann út í fyrsta leiknum en koma seríunni á móti einu besta liði vetrarins, í oddaleik. Keflvíkingar voru frábærir nánast allan fyrri hálfleikinn en lentu í einhverju óútskýranlegu í seinni hálfleik og réðu ekki neitt við neitt. Þegar svekkelsið verður runnið af þeim, geta þeir þó vonandi hugsað til baka á þessu tímabili með bros á vör, þeir tóku jú bikarinn.
Þrjú viðtöl fylgja þessari frétt, viðtalið við Jóhann Þór, þjálfara Grindavíkur, er að hlaðast niður og verður bætt við á eftir.