„Aginn, dugnaðurinn og samvinnan þarf að vera áfram til staðar“
Ray Anthony Jónssyni, þjálfara kvennaliðs Grindavíkur, líst ágætlega á stöðuna í 2. deild kvenna þar sem Grindavík er í öðru sæti þegar deildin er hálfnuð.
„Mér líst vel á stöðuna eftir erfiða byrjun og við erum bara búin að fá á okkur tvö mörk eftir fyrstu tvo leikina en við töpuðum þeim og fengum í þeim á okkur fimm mörk.“
– Þið voruð að styrkja liðið með nýjum leikmönnum.
„Já, markmaðurinn okkar hefur verið að glíma við höfuðmeiðsli sem hún varð fyrir á æfingu og við vildjum ekki taka neina áhættu þegar kemur að höfuðmeiðslum. Þá hefur ungi markvörðurinn okkar, hún Sigurbjörg [Sigurpálsdóttir], verið eini markvörður 3. flokks og spilað marga leiki með þeim, við vildum ekki útiloka hana frá þeim leikjum svo þá þurftum við að bregðast skjótt við og sem betur fer náðum við að landa góðum markmanni, Margréti Ingþórsdóttur, sem kom frá Fjölni. Við styrktum líka framlínuna hjá okkur vegna áfalls sem við urðum fyrir í leiknum gegn Fram en undir lok leiksins fótbrotnaði eitt skærasta ungstirnið okkar, Tinna Hrönn Einarsdóttir, og verður frá í langan tíma. Þess vegna þurftum við líka að bæta við okkur sóknarmanni og fengum Melkorku Ingibjörgu Pálsdóttur frá Augnabliki.
Þetta lítur vel út hjá okkur, markmiðið var að lenda í öðru hvoru af efstu tveimur sætunum. Núna erum við í öðru sæti og það má segja að nú sé hálfleikur, helmingurinn af leikjunum er eftir og það má ekki gefa neitt eftir í baráttunni. Liðið er að bæta sig í hverjum leik og núna er miklu betra skipulag og agi á leiknum hjá okkur. Ég er mjög ánægður með agann í síðast leik þar sem við voru undir í flestum atriðum en héldum þetta út, féllum til baka og sóttum hratt.“
– Hvernig er staðan á hópnum, eru einhverjar farnar í nám eða heldurðu öllum?
„Við misstum Brynju til Bandaríkjanna í nám, hún var sú eina sem fór af þeim sem áttu að fara út. Svo auðvitað misstum við Tinnu Hrönn í meiðsli en annars er þetta sami hópur og hefur verið í allan vetur. Svo fengum við Evu Lind [Daníelsdóttur] líka sem hefur verið mjög góð síðan hún kom. Við höfum náð að styrkja okkur á þeim stöðum sem vantaði.
Ef liðið heldur áfram að spila eins og það hefur spilað undanfarna leiki, eiginlega eftir leik númer tvö, þá erum við í góðum málum – en við þurfum alltaf að hafa fyrir því að ná í þessi stig og ennþá meira til að vinna leikina. Aginn, dugnaðurinn og samvinnan þarf að vera áfram til staðar.“