Yfirspilaðar á heimavelli
Grindvíkingar tóku í gær á móti Augnabliki í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Liðin eru á svipuðum slóðum í deildinni, í sjötta og sjöunda sæti, en það voru gestirnir sem réðu lögum og lofum á vellinum og endaði leikurinn með þriggja marka tapi Grindvíkinga, 1:4.
Hlutverk Grindvíkinga í leiknum í gær var að liggja til baka á meðan Augnablik lét boltann ganga sín á milli. Af og til sýndu þær gulklæddu þó ágætis sóknartilburði og voru þær Júlía Rut Thasaphong og Sigríður Emma F. Jónsdóttir ógnandi framarlega á vellinum. Þegar langt var liðið á fyrri hálfleik kom fyrsta markið (45'+1) og það var af ódýrari gerðinni, boltinn lak þá einhvern veginn í gegnum þéttan pakka fyrir framan mark Grindvíkinga og í netið. Annað markið kom skömmu seinna, einnig í uppbótartíma (45'+4). Þá varði Lauren Houghton, markvörður Grindvíkinga, vel en boltinn hrökk fyrir fætur sóknarmanns Augnabliks sem fylgdi skotinu vel eftir.
Seinni hálfleikur fór ekki vel af stað og lentu Grindvíkingar þremur mörkum undir á 49. mínútu. Til að reyna að hressa upp á leik sinna manna gerði Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari Grindvíkinga, fjórfalda breytingu – það skilaði ekki árangri því aðeins tveimur mínútm síðar lenti Grindavík fjórum mörkum undir (62'). Caitlin Rogers klóraði í bakkann á lokamínútu leiksins (89') og skoraði eina mark Grindvíkinga sem eru áfram í sjötta sæti en Augnablik er nú aðeins einu stigi á eftir þeim.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Grindavíkurvelli í gær og tók meðfylgjandi myndir.