Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Yfirlýsing Keflvíkinga:
Fimmtudagur 5. júlí 2007 kl. 22:42

Yfirlýsing Keflvíkinga: "Aumkunarverð tilraun Skagamanna"

Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur sent frá sér tilkynningu vegna atviksins sem átti sér stað á Akranesi í gærkvöldi. Hún fylgir hér á eftir:

 

Yfirlýsing frá Knattspyrnudeild Keflavíkur


Í ljósi yfirlýsinga forráðamanna ÍA þykir Knattspyrnudeild Keflavíkur rétt að taka eftirfarandi fram:

Tilraunir Skagamanna til að breiða yfir skömm Bjarna Guðjónssonar með því að segja sökina Keflvíkinga er aumkunarverð.

Í fyrsta lagi var Bjarna Guðjónssyni aldrei hótað á leikvelli, heldur var hann spurður hver væri meining hans og hvort Skagamenn ætluðu að gefa mark.  Svar hans var Nei.

Í öðru lagi var leikmönnum Keflavíkur og forráðamönnum varnaður inngangur í búningsklefa sinn sem er með öllu óleyfilegt samkvæmt reglum KSÍ.

Í þriðja lagi eru ásakanir Skagamanna um handalögmál algerlega úr lausu lofti gripnar og eiga ekki neina stoð í raunveruleikanum.  Nær væri að spyrja hvað almenningur var að gera fyrir utan búningsklefa eftir að umræddum leik lauk, svo og hvernig almennri öryggisgæslu leikmanna beggja liða var háttað.

Það er ekki og hefur ekki verið stíll Keflavíkurliðsins að eiga í útistöðum við leikmenn, þjálfara eða aðstandendur þeirra liða sem félagið leikur við.

Keflvíkingar gera sér grein fyrir því að slæm samviska nagar umræddan Bjarna Guðjónsson og menn með slíka samvisku reyna oft að breiða yfir líðan sína með því að finna sök hjá öðrum.  Slíkt þykir samt ekki karlmannlegt eða heiðarlegt.

Það er von Knattspyrnudeildar að óheiðarleiki innan vallar sé metin til jafns við óheiðarleika utan vallar, samanber mútumál á Ítalíu, fjárhagsmál á Englandi og Frakklandi sem og svindl leikmanna í öllum þessum löndum.

Það er ólíðandi að lið komist upp með aðra eins vanvirðingu við knattspyrnuna í heild og vona forráðamenn Keflavíkur að öllum hugsanlegum aðferðum verði beitt svo að önnur lið freistist ekki til að leika þennan leik eftir.  Eftir stendur að sá sem er sekur um óheilindi í þessi tilviki græðir á broti sínu.

Stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur

 

Fyrr í dag bað stjórn Rekstrarfélags KÍA leikmenn, stjórn og stuðningsmenn Keflavíkur afsökunar á atvikinu þegar Bjarni Guðjónsson skoraði markið sem kom öllum látunum af stað. Þeir eru hins vegar ósáttir við ummæli Kristjáns Guðmundssonar þjálfara Keflavíkur, um Bjarna og einnig við framkomu einstakra leikmanna Keflavíkur í garð Bjarna, leikmanna ÍA, starfsmanna leiksins og aðstandenda leikmanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024