Yfirlýsing frá Grindavík
Völtuðu yfir Njarðvík og mæta KR í úrslitum
Það verða Grindvíkingar sem glíma við KR um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla í ár, eftir að þeir gulu sendu Njarðvíkinga í sumarfrí á sannfærandi hátt í Röstinni í oddaleik. Lokatölur urðu 120-95, þar sem Grindvíkingum héldu engin bönd. Nú eru meistarar síðustu tveggja ára í seilingarfjarlægð frá sögulegri þrennu.
Grindvíkingar mættu heldur betur gíraðir til leiks á heimavelli sínum og náðu strax undirtökum í leiknum. Varnarleikur gestanna var ekkert til að hrópa húrra fyrir og Grindvíkingar með þá Sigurð Þorsteins og Lewis Clinch í fararbroddi, gengu á lagið. Þegar fyrsta leikhluta lauk höfðu Grindvíkingar skorað hvorki fleiri né færri en 38 stig gegn 19 frá Njarðvíkingum. Hreint ótrúlegar tölur en þess má til gamans geta að Grindvíkingar skoruðu 30 stig í öllum fyrri hálfleik síðast þegar liðin áttust við. Margir Grindvíkingar hafa sjálfsagt brosað út í annað á þessum tímapunkti en Lewis Clinch var gjörsamlega funheitur og áttu Njarðvíkingar fá svör við bakverðinum sem setti öll fjögur þriggja stiga skot sín niður í fyrsta leikhluta.
Ennþá rauk af heimamönnum og allt virtist ganga upp í sóknarleik þeirra þegar næsti leikhuti hófst. Grindvíkingar höfðu hreinlega öll völd á vellinum í fyrri hálfleik og skoruðu 62 stig áður en liðin gengu til búningsklefa á meðan Njarðvík var með 41 stig, sem að öllu jöfnu teldist ásættanlegt. Munurinn orðinn mikill og ljóst að Njarðvíkingar þyrftu að girða sig í brók ef þeir ætluðu ekki að láta niðurlægja sig í Grindavík. Aftur má minna á það að Grindvíkingar skoruðu 68 stig í öllum leiknum í Ljónagryfjunni á dögunum, en 62 í hálfleik í Röstinni í kvöld.
Íslands- og bikarmeistararnir í Grindavík héldu uppteknum hætti og splæstu í 34 stig í þriðja leikhluta, takk fyrir. Munurinn fór yfir 30 stig á tímabili og ljóst að Grindvíkingar ætluðu ekkert að slaka á klónni gegn vonlitlum Njarðvíkingum sem voru síðri í öllum þáttum körfuboltans í leiknum. Það var nánast bara formsatriði að klára síðasta fjórðung fyrir þá gulu og tryggja sæti í úrslitum. Hreint mögnuð hittni Grindvíkinga hélt áfram og löngu orðið klárt að Njarðvíkingar næðu aldrei að klífa þessa bröttu brekku.
Í kvöld sýndu Grindvíkingar og sönnuðu að þar fer ógnarsterkt lið sem vel getur velgt KR undir uggum, en margir hafa þegar spáð þeim röndóttu sigri á Íslandsmótinu. Liðsheild Grindvíkinga er feikilega góð og með Lewis Clinch í þessum ham stenst ekkert lið landsins þeim snúning. Clinch átti kynngimagnaðan leik í kvöld þar sem hann skoraði 31 stig og gaf 10 stoðsendingar. Hann hitti afar vel í leiknum og mun þessi frammistaða hans lengi vera í minnum höfð hjá Grindvíkingum. Alls skoruðu 6 leikmenn heimamanna yfir 10 stig sem sýnir kannski vel þá breidd sem býr í liðinu.
Tölfræðin:
Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr. 31/10 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 24/6 fráköst/5 varin skot, Ómar Örn Sævarsson 19/12 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 17, Ólafur Ólafsson 14/7 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 11/8 fráköst, Daníel Guðni Guðmundsson 2, Magnús Már Ellertsson 2, Hilmir Kristjánsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Kjartan Helgi Steinþórsson 0.
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 26/7 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 23, Tracy Smith Jr. 16/9 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 10, Ólafur Helgi Jónsson 8, Maciej Stanislav Baginski 7/5 fráköst, Ágúst Orrason 5, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Magnús Már Traustason 0, Egill Jónasson 0, Brynjar Þór Guðnason 0.