Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Yfirburðir Suðurnesjaliðanna miklir
Danele Wallen leiddi sigur Keflavíkur á Haukum. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 14. mars 2024 kl. 08:30

Yfirburðir Suðurnesjaliðanna miklir

Keflavík vann góðan sigur á Haukum í Subway-deild kvenna í körfuknattleik þegar liðin mættust í Blue-höllinni í gær. Njarðvíkingar komust aftur á sigurbraut í fyrrakvöld þegar þær lögðu Stjörnuna í Ljónagryfjunni. Þegar ein umferð er óleikin fyrir úrslitakeppnina eru Keflvíkingar efstir með 22 sigra en Grindavík og Njarðvík koma næst með fimmtán sigra hvort.

Keflavík - Haukar 86:63

Keflavík hafði undirtökin allan tímann og munaði níu stigum á liðunum í hálfleik (44:35).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það má segja að Keflvíkingar hafi gert út um leikinn í upphafi þriðja leikhluta en Haukar skoruðu ekki fyrstu þrjár og hálfa mínútu leikhlutans, á meðan settu Keflvíkingar niður sextán stig og munurinn því orðinn 25 stig (60:35) – of mikill munur til að Hafnfirðingar næðu endurkomu og 23 stiga sigur því heimakvenna (86:63).

Daniela Wallen fór fyrir Keflavík með sautján stig og sextán fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir var einnig með sautján stig, Eliza Pinsan fimmtán og Sara Rún Hinriksdóttir ellefu.

Jana Falsdóttir fór vægast sagt á kostum með Njarðvíkingum sem unnu góðan sigur á Stjörnunni.

Njarðvík - Stjarnan 99:72

Eftir að hafa tapað fjórum leikjum í röð voru Njarðvíkingar ákveðnir að snúa genginu sér í hag þegar Stjarnan mætti í Ljónagryfjuna á þriðjudag.

Njarðvík tók tíu stiga forystu í fyrsta leikhluta (27:27) og tvöfaldaði hana í hálfleik (55:35).

Stjörnukonum tókst ekki að hleypa spennu í leikinn þó þær hafi aðeins náð að narta í forskotið í þeim þriðja og minnka niður í fimmtán stig (73:58) og að lokum blasti langþráður sigur við Njarðvíkingum (99:72).

Með þessum fjórum töpum er Njarðvík komið niður fyrir Grindavík sem hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum.

Jana Falsdóttir átti stórleik sem skilaði 21 stigi og tíu stoðsendingum, Selena Lott var stigahæst með 25 stig, Emelie Hesseldal með sautján og Krista Gló Magnúsdóttir ellefu.


Undanúrslit VÍS-bikars kvenna verða leikin í Laugardalshöll á þriðjudag en þá mætast grannaliðin Keflavík og Njarðvík klukkan 17:15.

Að þeim leik loknum mætast Grindavík og Þór Akureyri, sá leikur hefst klukkan 20:15.