Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Íþróttir

Yfirburðasigur Keflavíkur gegn lágstemmdum Fylkismönnum
Fimmtudagur 15. maí 2008 kl. 22:19

Yfirburðasigur Keflavíkur gegn lágstemmdum Fylkismönnum

Keflvíkingar hafa fullt hús stiga í Landsbankadeild karla í knattspyrnu eftir öruggan 2-1 sigur á Fylki í annarri umferð deildarinnar. Það voru þeir Guðmundur Steinarsson og Hólmar Örn Rúnarsson sem gerðu mörk Keflavíkur í kvöld en tveimur mínútum fyrir leikslok náðu gestirnir úr Árbænum að klóra í bakkann með fínu marki frá Andrési Jóhannessyni. Keflvíkingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum en fóru ansi oft illa að ráði sínu við Fylkismarkið og hefðu hæglega getað gert nokkur mörk til viðbótar en tvö urðu þau sem skiluðu þremur stigum í hús.
 
Heimamenn pressuðu gesti sína stíft í upphafi leiks og gekk Fylkismönnum illa að halda boltanum fyrir vikið. Keflvíkingar voru mun grimmari og á 6. mínútu fékk Guðmundur Steinarsson fyrsta færi leiksins er hann skaut að marki vinstra megin úr teignum en skotið var nokkuð laust svo Fjalar Þorgeirsson átti ekki í vandræðum með það í marki Fylkis.
 
Bakvörðurinn Guðjón Árni Antoníusson var á ferðinni á 14. mínútu og skallaði boltann rétt yfir mark Fylkis eftir hornspyrnu en Keflvíkingar þurftu ekki að bíða mikið lengur eftir fyrsta markinu sem kom loks á 20. mínútu eftir þungar sóknir heimamanna.
 
Hólmar Örn Rúnarsson kom Keflavík í 1-0 eftir hornspyrnu. Boltinn kom fyrir markið og Fylkismönnum misfórst að koma honum í burtu á meðan Hólmar náði að koma öðrum fæti til knattarins. Fylkismenn voru ekki sáttir við að markið hefði verið dæmt því margir þeirra vildu meina að boltinn hefði ekki farið yfir línuna. Dómari leiksins flautaði þó markið gilt og staðan 1-0 eftir 20 mínútna leik.
 
Keflvíkingar fengu tvö mjög góð færi í fyrri hálfleik til þess að auka muninn í 2-0 en þeim voru mislagðar hendur við Fylkismarkið. Hallgrímur Jónasson brenndi af stuttu færi í teignum á 28. mínútu og Hólmar Örn Rúnarsson brenndi af öðru slíku á 32. mínútu er hann snéri af sér varnarmann Fylkis í teignum og skaut boltanum yfir markið.
 
Liðin héldu inn í hálfleik í stöðunni 1-0 Keflavík í vil og voru heimamenn miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Fylkismenn áttu eitt þokkalegt færi allan fyrri hálfleikinn en að öðrum kosti voru gestirnir ekki ógnandi í framlínunni gegn sterkri vörn Keflavíkur.
 
Áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir öðru marki Keflavíkur í síðari hálfleik en þá var Guðmundur Steinarsson á ferðinni á 48. mínútu. Boltinn barst til Guðmundar skammt utan við teig og fékk hann allan þann tíma sem hann þurfti til þess að munda fallbyssuna og þegar skytta á borð við Guðmund fær tíma til athafna er það oftar en ekki ávísun á vandræði. Fyrirliðinn og bláeygða byssan Guðmundur sendi knöttinn örugglega í vinstra hornið og staðan orðin 2-0. Guðmundur er því komin með þrjú mörk í deildinni en hann skellti tveimur í Valsmarkið á dögunum.
 
Stórsóknir Keflavíkur héldu áfram að því er virtist linnulaust á meðan bitlausir Fylkismenn fórnuðu höndum. Yfirburðir Keflavíkur voru algerir og ekki bætti úr skák þegar hver sóknarmaðurinn af öðrum kom af bekknum. Fyrstur af bekk inn á völlinn var Þórarinn Kristjánsson, svo kom Hörður Sveinsson til leiks og síðastur en ekki sístur var Magnús Sverrir Þorsteinsson.
 
Ekki leið á löngu uns Þórarinn Kristjánsson var kominn í feitt en á 77. mínútu átti hann fast skot á Fylkismarkið úr teignum sem Fjalar Þorgeirsson varði með miklum tilþrifum.
 
Fylkismenn náðu að klóra í bakkann og gera sitt fyrsta mark í deildinni þegar Andrés Jóhannesson fékk boltann í Keflavíkurteignum eftir hornspyrnu og kom boltanum þaðan í netið. Staðan 2-1 og þar við sat.
 
Sportmenn, stuðningsmannaklúbbur Keflavíkur, völdu Hólmar Örn Rúnarsson besta mann leiksins en mikil vinnsla var á Hólmari í kvöld sem og öllu Keflavíkurliðinu sem sóttu án afláts og máttu Fylkismenn þakka fyrir að sleppa með 2-1 ósigur af Sparisjóðsvellinum. Ekki amalegur sigur fyrir Keflvíkinga sem máttu þola 4-0 tap í Árbænum þegar liðin mættust síðast og var kvittað að fullu fyrir þann tapleik í kvöld.
 
Næsti leikur Keflavíkur í Landsbankadeildinni verður þann 19. maí kl. 19:15 þegar liðið mætir HK í Kópavogi.
 
VF-Myndir/ [email protected] Á efri myndinni er Hólmar Örn kominn á fulla ferð en á þeirri neðri er félagi hans Hörður búinn að laða að sér varnarmann Fylkis en Hörður kom sterkur inn af bekknum og var mjög ógnandi þær mínútur sem hann lék í kvöld.