Yfirburðasigur ÍRB á Gullmóti KR í sundi
Lið ÍRB vann yfirburðasigur á Gullmóti KR í sundi sem fram fór um síðustu helgi. Þetta er 7. árið sem liðið vinnur í liðakeppni félaga á þessu móti. Ágætir tímar náðust í nokkrum greinum. Árangur Ólafar Eddu Eðvarðsdóttur var einkar athyglisverður en hún hóf mótið á að setja mótsmet í 50m bringusundi 11-12 ára meyja á föstudagskvöldinu. Á laugardeginum bætti hún um betur og setti sitt fyrsta aldursflokkamet í meyjaflokki. Metið setti hún í 200m bringusundi þegar hún synti á tímanum 3.00.18 og bætti um leið met frá 2007 sem Eygló Ósk Gústafsdóttir átti. Í stigakeppni einstaklinga þá sigraði Ólöf Edda í stigakeppni meyja 11 - 12 ára og Baldvin Sigmarsson varð þriðji í flokki sveina 11 -12 ára.
Það er vert að minnast á árangur Davíðs Hildibers Aðalsteinssonar sem sigraði á KR Super Challenge en þar keppa þeir til úrslita sem eiga átta bestu tímana úr undanrásum í 50m flugsundi. Davíð synti á mjög góðum tíma í lokaumferðinni 25.50, en aðeins einn ÍRB meðlimur hefur synt á betri tíma. Örn Arnarson gerði það árið 2003, synti þá á 25.02 en sá tími var þá nýtt íslandsmet í greininni.
---
Mynd: Það er alltaf góð stemmning hjá ÍRB-liðinu og stuðningsfólki. Mynd úr safni ÍRB.