Yfirburðasigur hjá Haukum
Það var snemma ljóst í hvað stefndi að Ásvöllum í dag er deildarmeistarar Hauka rúlluðu yfir Íslandsmeistara Keflavíkur 90 – 61. Haukar hófu leikinn af krafti og hleyptu Keflavík aldrei inn í leikinn. Meagan Mahoney átti ljómandi góðan dag hjá Haukum með 22 stig, 7 stoðsendingar og 13 fráköst. María Ben Erlingsdóttir gerði 17 stig hjá Keflavík og tók 8 fráköst.
Haukar gerðu fyrstu stig leiksins og fyrr en varði var staðan orðin 16 – 3 Haukum í vil. Keflavíkurliðið mætti hálf sofandi til leiks og vörn þeirra hriplak hvað eftir annað. Að loknum 1. leikhluta var staðan 22 – 9 fyrir Hauka.
Í 2. leikhluta bættu Haukar í og fengu Íslandsmeistararnir ekkert við ráðið. Staðan að loknum 2. leikhluta var 49 – 18 fyrir Hauka og úrslitin ráðin.
Keflavík klóraði rétt aðeins í bakkann í 3. leikhluta sem lauk í stöðunni 66 – 48 en munurinn var þegar of mikill og sigldu Haukakonur nokkuð örugglega að sínum fyrsta sigri í úrslitunum, 90 – 61.
Næsti leikur liðanna fer fram í Keflavík þriðjudaginn 4. apríl kl. 20:00.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/ JBÓ
[email protected]