Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Yfirburðasigur gegn Njarðvík
Föstudagur 10. mars 2006 kl. 12:23

Yfirburðasigur gegn Njarðvík

Keflvíkingar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í gærkvöldi með yfirburðasigri gegn grönnum sínum í Njarðvík 89 – 73. Njarðvík var á toppi IE – deildarinnar í 21 umferð en misstu sætið upp í hendur Keflavíkur í síðustu umferðinni í gær. Íslandsmeistarar Keflavíkur, með A.J. Moye í broddi fylkingar, fóru á kostum og splundruðu Njarðvíkurvörninni aftur og aftur líkt og að drekka vatn.

Njarðvíkingar hófu leikinn af krafti og komust í 2 – 13 en 1. leikhluta lauk í stöðunni 15 – 19 Njarðvík í vil. Frá upphafi annars leikhluta urðu fallaskipti í leik beggja liða, Njarðvíkingar pökkuðu saman en Keflvíkingar kynntu vel undir hraðlestinni og rúlluðu yfir Njarðvíkinga. Staðan í hálfleik var 41 – 29 fyrir Keflavík og unnu þeir 2. leikhluta 26 – 10.

Keflvíkingar létu deigan ekki síga í síðari hálfleik og léku sér að Njarðvíkingum. Halldóri Karlssyni, fyrirliða Njarðvíkur, var vikið af leikvelli eftir orðaskak við Björgvin Rúnarsson dómara og á von á leikbanni. Staðan að loknum 3. leikhluta var 74 – 38 Keflavík í vil og ljóst að Íslandsmeistararnir eru reiðubúnir fyrir úrslitakeppnina.

Njarðvíkingar klóruðu í bakkann í 4. leikhluta og sigruðu hann 15 – 35 en það hafði lítið að segja og lokatölur 89 – 73. Keflvíkingar eru því deildarmeistarar og mæta Fjölni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, Njarðvík mætir ÍR en úrslitakeppnin hefst fimmtudaginn 16. mars n.k.

AJ Moye var án efa maður leiksins með 37 stig og 12 fráköst, auk þess lék hann frábæra vörn á Jeb Ivey sem var langt frá sínu besta með 15 stig í leiknum. Stigahæstur Njarðvíkinga var Friðrik Stefánsson með 18 stig og 21 frákast.

Tölfræði leiksins

VF – myndir/ JBÓ, [email protected]

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024