Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Yfir 5000 stig í kveðjuleik
Miðvikudagur 1. mars 2006 kl. 21:49

Yfir 5000 stig í kveðjuleik

Anna María Sveinsdóttir, sigursælasta og stigahæsta körfuknattleikskona landsins kvaddi parketið með eftirminnilegum hætti í kvöld þegar Keflavík vann öruggan sigur á Breiðablik í Iceland Express-deild kvenna. Anna María er nú endanlega hætt að spila en mun verða stúlkunum innan handar það sem eftir lifir tímabils.

Lokatölur í leiknum voru 98-62, en Anna María skoraði 5 stig í leiknum og komst þar með í 5001 stig á ferlinum, fleiri en nokkur önnur kona. Leikurinn var annars ekki ýkja skemmtilegur, enda mikill getumunur á liðunum og Keflavík með undirtökin allt frá byrjun. Staðan var 20-16 eftir 1. leikhluta, en 40-23 í hálfleik. Í seinni hálfleik jókst munurinn hægt og rólega og nú eru Keflvíkingar komnar upp að hlið UMFG þegar 2 umferðir eru eftir af deildinni.

Lakiste Barkus og Bára Bragadóttir voru stigahæstar Keflvíkinga með 14 stig hvor, en hin unga og efnilega Hrönn Þorgrímsdóttir gerði 12 stig úr fjórum 3ja stiga körfum.

Meagan Hoffman var stigahæst Blika með 25 stig, en Erica Anderson var með þrefalda tvennu, 17 stig, 10 fráköst og jafnmargar stoðsendingar.

Keflavík og UMFG mætast í síðustu umferðinni sem fer fram 15. mars og þá gæti ráðist hvort liðið hreppti annað sætið og þar af leiðandi heimaleikjaréttinn í rimmu liðanna í undaúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/Þorgils

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024