Willum „Keflavíkurhjartað hefur fleytt okkur áfram“
Er að lifna yfir Keflvíkingum? „Já maður er alltaf léttari þegar maður sigrar. Við vorum raunsæir á stöðuna, búnir að fara í fallbaráttuleiki gegn Fram og Víking og við lögðum upp með sterkt hugarfar og stóra Keflavíkurhjartað. Það er fyrst og fremst það sem hefur fleytt okkur í gegnum þessa tvo leiki,“ sagði Willum Þór Þórsson þjálfari Keflvíkinga að loknum leik Keflvíkinga og Víkings í gær sem lyktaði með sigri Keflvíkinga 2-1.
„Við náðum upp fínum dampi hér í dag. Heilsteyptur og góður leikur að okkar hálfu vil ég meina og ungu strákarnir eru að standa fyrir sínu. Þeir komu inn gegn Fram og öðluðust sjálfstraust og spiluðu vel í dag eins og liðið í heild.“
Willum tekur undir að fyrri hálfleikurinn sé með því besta sem sést hefur frá Keflvíkingum í sumar. „Já fyrri hálfleikurinn var mjög heilsteyptur, varnar - og sóknarlega. Við lukum sóknum og boltinn flaut vel í liðinu. Við komum hærra á völlinn hér í dag og settum pressu á þá. Við erum vonandi að finna formið,“ sagði Willum svo að lokum.
VF-Myndir: Eyþór Sæmundsson: Gunnar Oddsson hefur aðstoðað Keflvíkinga að undanförnu, hann sést hér ásamt Willum á bekknum í gær.