Willum: Engar áhyggjur af markaskorti
„Ég er mjög sáttur með leik minna manna og ekki síst miðað við mjör erfiðar aðstæður en hefði auðvitað viljað sjá öll stigin. Við áttum fjölmörg færi sem við nýttum ekki,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflvíkinga eftir jafnteflisleik gegn Haukum í kvöld.
Aðspurður um að liðið hafi ekki verið nógu sannfærandi að undanförnu vildi þjálfarinn ekki taka undir það. „Við vorum reyndar algerlega út úr karakter gegn Stjörnunni en við vorum miklu sterkari aðilinn í þessum leik. Yfirspiluðum Haukana meira og minnna“.
En ykkur gengur ekki að skora mörg mörg, aðeins 7 mörk í jafn mörgum leikum?
„Það er rétt en við erum á toppnum. Vissulega hefur okkur gengið frekar illa að skora en ég hef ekki áhyggjur af því, langt í frá. Þetta fer að detta, ég er sannfærður um það. Það munaði auðvitað um að aðal framherjinn okkar, Hörður Sveinsson var ekki með. Við breyttum aðeins leikskipulaginu, lékum 4-4-2 með tvo framverði, Guðmund Steinars og Magnús Þorsteins og ákváðum að sækja á kantana. Það tókst mjög vel og við komum þeim oft í vandræði þó svo okkur hafi ekki gengið að setja boltann í netið“.
Þú hlýtur að hafa verið orðinn áhyggjufullur á hliðarlínunni?
„Þú getur rétt ímyndað þér. Við ætluðum að reyna skora snemma og slá þá út af laginu en þeir vörðust vel og það er einkennandi fyrir liðin í neðri parti deildarinnar. Ef við hefðum skorað snemma er ég nokkuð viss um að við hefðum sallað á þá mörkum.“
Þú tekur sem sagt ekki undir þá umræðu að liðið sé ekki sannfærandi í síðustu leikjum?
„Við erum á toppnum með öðrum liðum, höfum aðeins tapað einum leik. Þessi umræða er út úr kortinu. Ég neita því hins vegar ekki að vissulega hefði ég viljað sjá okkur skora meira. Við erum að vinna í því og ég er bjartsýnn á að þetta fari að detta hjá okkur hvað það varðar. Það hafa 8 leikmenn skorað þessi átta mörk með bikarleiknum og það er jákvætt,“ sagði Willum.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson