Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Watson með 51 stig í sigri Keflavíkur.
Miðvikudagur 31. október 2007 kl. 22:05

Watson með 51 stig í sigri Keflavíkur.

Keflavík sigraði Grindavík örugglega 103-71, í Iceland Express deild kvenna í Sláturhúsinu í kvöld. TaKesha Watson átti frábæran leik og setti niður hvorki meira né minna en 51 stig. Fyrir leikinn var einnar mínútu þögn til minngar um Gylfa Kristjánsson, fyrrum formann KKÍ sem féll frá fyrir skömmu.

Liðin virtust ryðguð til að byrja með og en Keflavík var þó fyrri til að skora. Jafnræði var með liðunum en Keflavík var þó alltaf skrefinu á undan og leiddi efir fyrsta leikhluta 21-19. Watson skoraði 14 af fyrstu 21 stigi Keflavíkur í þessum leikhluta.

Í öðrum leikhluta var aldrei spurning hvor liðið ætlaði sér sigur. Keflavík breytti í svæðisvörn og pressaði Grindavíkurstúlkur um allan völl og það skilaði sér í góðu forskoti í hálfleik, 48-34.

Það sama var upp á teningnum í seinni hálfleik og var Keflavík hreinlega betri á öllum sviðum. Grindvíkingar virtust eiga í vandræðum með að brjóta varnarleik Keflavíkur á bak aftur, og sóknarleikurinn var tilviljanakendur. Staðan eftir þriðja leikhluta var því 77-51.

Fyrir lokafjórðungin voru úrslitin nánast ráðin og aðeins formsatriði hve stór sigur Keflavíkur yrði og fór svo að Keflavík sigraði með 32 stiga mun, 103-71.

Keflavík leiddi leikinn frá fyrstu mínútu til enda og stórkostleg frammistað TaKesha Watson virtist slá Grindavíkurstúlkur útaf laginu, en henni héldu engin bönd. Ekki nóg með að Watson skoraði 51 stig heldur tók hún 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Sannarlega glæsileg frammistaða þar á ferðinni. Bryndís Guðmundsdóttir átti einnig góðan leik, skoraði 19 stig og gaf 5 stoðsendingar.


Keflavíkurliðið átti mjög góðan dag og fátt sem bendir til þess að nokkurt lið komi til með að stöðva þær í vetur.

Tiffany Roberson var atkvæðamest hjá Grindavík með 22 stig og tók 16 fráköst. Joanna Skiba kom þar næst á eftir með 17 stig og 5 stoðsendingar.

Í næsti leikur Keflavíkur verður á laugardaginn næstkomandi þegar þær kíkja í heimsókn á Ásvelli og keppa við Hauka. Grindavík tekur svo á móti Haukum eftir rétta viku.

Tölfræði


VF-mynd/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024