Watson farin heim
Jerica Watson, leikmaður Grindavíkur í Iceland Express deild kvenna, hefur sagt skilið við Grindavík og mun ekki leika meira með liðinu á þessari leiktíð. Hún mun hafa verið haldin mikilli heimþrá og óskaði þess að fá að fara heim.
„Hún tilkynnti mér þetta eftir Haukaleikinn þann 8. febrúar og alveg síðan var ég í mesta basli með hana,“ sagði Unndór Sigurðsson, þjálfari Grindavíkurkvenna, í samtali við Víkurfréttir.
Jerica var lykilmaður í Grindavíkurliðinu með 29,1 stig að meðaltali í leik og um 16 fráköst að meðaltali.
„Þetta tók hrikalega mikið frá bikarundirbúningi okkar en ég tilkynnti liðinu þetta í gær,“ sagði Unndór. „Svo kom þetta bara í ljós í úrslitaleiknum, hún var bara áhugalaus, nú erum við bara að leita að nýjum erlendum leikmanni og komum tvíefldar í úrslitakeppnina,“ sagði Unndór að lokum.
VF – mynd/ JBÓ, [email protected]