„Vörnin okkar styrkleiki“
Jeb Ivey hefur fallið eins og flís við rass í leikjum Njarðvíkurliðsins í Iceland Express deildinni í körfuknattleik. Hann gerir að meðaltali 21,7 stig í leik og er með 7 stoðsendingar að meðaltali.
Af sex leikjum sem Njarðvíkurliðið hefur leikið í deildinni hefur Jeb verið stigahæstur Njarðvíkinga í fimm leikjum. Víkurfréttir tóku Jeb tali en honum finnst íslenskur körfuknattleikur hafa tekið miklum framförum á þeim þremur árum sem hann hefur verið hér.
Hverju þakkar þú góðu gengi þínu og liðsins í upphafi leiktíðar?
„Vörnin er okkar styrkleiki, við höfum lent á leikjum þar sem skotin okkar eru ekki að detta niður en þá hefur vörnin verið að standa sig. Við höfum getað haldið liðum í lágri stigatölu gegn okkur.“
Hver finnst þér munurinn á því að leika með Njarðvík eða Fjölni?
„Það eru væntingarnar um árangur, í fyrra voru Fjölnismenn nýliðar í deildinni og þar var takmarkið að halda sér uppi og okkur tókst að koma á óvart. Á hverju ári eru gerðar kröfur um Íslandsmeistaratitilinn í Njarðvík og mér líkar það vel. Við þurfum að mæta vel stemmdir í alla leiki því það vilja allir leggja okkur að velli og því verðum við að búast við því að hver leikur verði hörkuleikur.“
Hvernig finnst þér íslenskur körfuknattleikur?
„Hann er frábær og hefur tekið miklum framförum þann tíma sem ég hef verið hérna.“
Hver verður staða Njarðvíkinga í lok tímabilsins?
„Ef allt gengur upp þá getum við staðið uppi sem sigurvegarar en við verðum að halda okkur á jörðinni og vinna okkar grunnvinnu,“ sagði Jeb Ivey að lokum.
Jeb verður í eldlínunni næstkomandi föstudag þegar erkifjendurnir úr Njarðvík og Keflavík mætast í fjögurra liða úrslitum Powerade bikarsins. Keflvíkingar munu því leika tvo leiki á tveimur dögum en þeir mæta BK Riga í Sláturhúsinu n.k. fimmtudag.