Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Vörn KR of sterk fyrir Grindvíkinga
Föstudagur 14. mars 2008 kl. 21:34

Vörn KR of sterk fyrir Grindvíkinga

Nýliðar KR í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik hafa tekið forystuna í einvígi þeirra gegn Grindavík í úrslitakeppninni sem hófst í kvöld. KR-ingar höfðu góðan 68-81 sigur á Grindavík í DHL-Höllinni en heimakonur leiddu frá upphafi til enda. Staðan í einvíginu er því 1-0 KR í vil en það lið sem fyrr hefur þrjá sigra kemst áfram í úrslitin og mætir þar Keflavík eða Haukum. Hildur Sigurðardóttir var sjóðheit í sterku KR-liði í kvöld og gerði 28 stig í leiknum en í liði Grindavíkur var Tiffany Roberson með 20 stig en þau komu öll inn með seinni skipunum.
 
KR tók snemma frumkvæðið í leiknum, léku fjölbreyttar svæðisvarnir og fráköstuðu af miklu afli. Staðan var 10-21 KR í vil eftir fyrsta leikhluta og Tiffany Roberson ekki komin á blaði í liði Grindavíkur sem átti bágt með að ráða úr varnarleik KR.
 
Enn eina ferðina máttu Grindvíkingar láta í minnipokann gegn KR í frákastabaráttunni en KR tók 58 fráköst í leiknum gegn 42 frá Grindavík. Þá tóku KR-ingar heil 17 sóknarfráköst í fyrri hálfleik enda leiddu nýliðarnir 28-37 í hálfleik. Íris Sverrisdóttir kom lífleg inn í lið Grindavíkur og var með 14 stig í leikhléi en hjá KR var Hildur Sigurðardóttir með 12.
 
Gestirnir úr Grindavík virtust ætla að jafna metin snemma í þriðja leikhluta þegar Joanna Skiba minnkaði muninn í 36-39 með þriggja stiga körfu en þátt settu KR-ingar í fluggír og skoruðu 13 stig í röð og staðan orðin 36-52. Grindvíkingar áttu þó fínan sprett undir lok þriðja leikhluta og staðan 48-59 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Í fjórða leikhluta var mesta æðið runnið af Hildi Sigurðardóttur sem var hreint frábær í kvöld en þá tók Guðrún Ámundadóttir við keflinu og kveikti í KR-ingum sem létu forystuna aldrei af hendi og lönduðu góðum 68-81 sigri.
 
Varnarleikur KR var fjölbreyttur í kvöld, mýmörg afbrigði af svæðisvörn litu dagsins ljós sem dugði heilar 40 mínútur til að villa um fyrir Grindvíkingum sem náðu aldrei að leysa vörn KR almennilega.
 
Eins og fyrr greinir var Hildur Sigurðardóttir frábær í liði KR með 28 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar. Candace Futrell gerði 22 stig og tók 7 fráköst og Guðrún Ámundadóttir var að leika einn sinn besta leik í vetur með 14 stig, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Nú er bara spurning hvort KR takist að landa sínum fyrsta sigri á Suðurnesjum þegar liðin mætast að nýju í Grindavík á sunnudag kl. 19:15.
 
Grindvíkingar þurfa að gyrða vel í brók fyrir sunnudaginn. Íris Sverrisdóttir lauk leik með 14 stig sem hún gerði öll í fyrri hálfleik en lítið sem ekkert sást til hennar í þeim síðari. Tiffany Roberson var með 20 stig en KR-ingar höfðu góðar gætur á henni í kvöld og oftar en ekki mátti Roberson sætta sig við tvídekkingu. Roberson reif einnig niður 14 fráköst en næst henni í kvöld var Íris með 14 stig og Joanna Skiba með 12 stig og 6 stoðsendingar. Petrúnella Skúladóttir gerði 8 stig í leiknum og tók 15 fráköst.
 
 
VF-Mynd/ [email protected]Tiffany Roberson sækir að körfu KR en hún var því miður alltof lengi í gang fyrir Grindavík í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024