Vongóður um að sleppa inn á ÓL
Jóhann Rúnar Kristjánsson, borðtenniskappi frá Reykjanesbæ, bíður enn og vonar það besta um að komast á Ólympíuleika fatlaðra í Peking síðar á þessu ári, en hann er fyrsti maður á biðlista eftir að keppandalisti var gefinn út á föstudag. Hann er nokkuð vongóður en er þó ekki sáttur við fyrirkomulagið við val á keppendum. „
Það eru 16 spilarar sem fá að vera með og nú var einum frá Kína hleypt upp fyrir mig af þeirri ástæðu einni að leikarnir fara fram í Kína. Hann á annars lítið í þetta mót því hann er í 32. sæti á styrkleikalistanum. Ég bjóst við því að komast inn en þetta eyðilagði eiginlega páskana fyrir manni," sagði Jóhann.
Vonir hans standa engu að síður til þess að þann 4. apríl nk., þegar lokað verður endanlega fyrir skráningar á ÓL, verði einhverjir í hópi hinna 16 sem detti út af einhverri ástæðu.
„Það er þarna einn spilari frá Lýbíu. Hann er ríkjandi Afríkumeistari og komst þess vegna sjálfkrafa inn, en þannig er að Afríkuríkin hafa ekki sent fulltrúa síðan árið 1964 að ég held þannig að nema hann verði styrktur af einhverjum auðmanni ætti hann varla að komast. Svo er einn Þjóðverji sem er líka inni núna en hefur í raun verið á niðurleið í þrjú ár og hefur lítið sýnt á þeim tíma. Við höfum heyrt utan af okkur að sambandið hjá þeim sé ekki tilbúið að senda hann út nema hann sé að fara að keppa um verðlaunasæti, sem er ekki mjög líklegt."
Jóhann segir að lokum að auðvitað sé ekki gaman að þurfa að treysta á að aðrir spilarar heltist úr lestinni, en hann bíði enn og voni það besta til 4. apríl.