Vonast til að mæta Keflavík í næstu umferð
– segir fyrirliði Njarðvíkinga eftir sigur á KFA í bikarkeppni KSÍ
Njarðvík tryggði sig áfram í Mjólkurbikarnum í knattspyrnu með góðum 4:1 sigri á KFA í gær. Kletturinn í vörninni og fyrirliði Njarðvíkinga, Marc McAusland, skoraði tvö og var nálægt því að skora þrennu en hann hefur ekki náð því í leik ennþá.
Fyrri hálfleikur var frekar rólegur og gestirnir höfðu betri tök á leiknum en Njarðvík lék á móti vindi. Staðan var markalaus í hálfleik en það færðist heldur betur líf í leikinn í þeim seinni þar sem heimamenn réðu lögum og lofum og sköpuðu sér fjölmörg ákjósanleg færi.
Vörn KFA hélt þar til á 60. mínútu þegar McAusland hamraði boltann í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu, óverjandi fyrir markvörð gestanna. Hann var svo aftur á ferðinni sex mínútum (66') síðar, aftur eftir hornspyrnu en núna skoraði hann með góðum skalla og staða Njarðvíkinga orðin vænleg, 2:0.
Njarðvíkingar héldu áfram að sækja en rétt undir lok leiksins kom upp eitthvað einbeitingarleysi hjá þeim og þeir hleyptu KFA inn í leikinn á ný þegar einhver sofandaháttur var í vörninni og gestirnir minnkuðu muninn (86').
Heimamenn bættu þá í og kafsigldu gestunum með tveimur mörkum til viðbótar áður en flautan gall að leikslokum. Það voru varamennirnir Oumar Diouf (88') og Luqman Hakim Shamsudin (90'+2) sem skoruðu mörkin og gulltryggðu sigur Njarðvíkur sem er komið í sextán liða úrslit.
Marc McAusland var ánægður með frammistöðu liðsins í leiknum en Njarðvíkingar sýndu að þeir hafa mikla breidd. Þeir skiptu fimm leikmönnum inn á í seinni hálfleik og allir léku vel, m.a. skoruðu tveir þeirra.
McAusland vonast til að mæta Keflavík í næstu umferð en það myndaðist frábær stemmning þegar þessi lið mættust í bikarleik á síðast tímabili. Njarðvík gerði sér þá lítið fyrir og sló Keflavík út og Marc vonar að núna fái þeir heimaleik. „Þeir vilja líka örugglega hefna sín,“ sagði Marc m.a. í viðtali við Víkurfréttir eftir leik. Viðtalið er í spilaranum hér að neðan og myndasafn sem Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók á leiknum.