Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Vonast til að mæta Keflavík í næstu umferð
Oliver Keelart og félagar fagna seinna marki fyrirliðans. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 21. apríl 2023 kl. 08:20

Vonast til að mæta Keflavík í næstu umferð

– segir fyrirliði Njarðvíkinga eftir sigur á KFA í bikarkeppni KSÍ

Njarðvík tryggði sig áfram í Mjólkurbikarnum í knattspyrnu með góðum 4:1 sigri á KFA í gær. Kletturinn í vörninni og fyrirliði Njarðvíkinga, Marc McAusland, skoraði tvö og var nálægt því að skora þrennu en hann hefur ekki náð því í leik ennþá.

Fyrri hálfleikur var frekar rólegur og gestirnir höfðu betri tök á leiknum en Njarðvík lék á móti vindi. Staðan var markalaus í hálfleik en það færðist heldur betur líf í leikinn í þeim seinni þar sem heimamenn réðu lögum og lofum og sköpuðu sér fjölmörg ákjósanleg færi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vörn KFA hélt þar til á 60. mínútu þegar McAusland hamraði boltann í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu, óverjandi fyrir markvörð gestanna. Hann var svo aftur á ferðinni sex mínútum (66') síðar, aftur eftir hornspyrnu en núna skoraði hann með góðum skalla og staða Njarðvíkinga orðin vænleg, 2:0.

Þeir verkja hann ekki þarna! Marc McAusland opnar markareikninginn með þrumuskoti sem kom Njarðvík í forystu.

Njarðvíkingar héldu áfram að sækja en rétt undir lok leiksins kom upp eitthvað einbeitingarleysi hjá þeim og þeir hleyptu KFA inn í leikinn á ný þegar einhver sofandaháttur var í vörninni og gestirnir minnkuðu muninn (86').

Heimamenn bættu þá í og kafsigldu gestunum með tveimur mörkum til viðbótar áður en flautan gall að leikslokum. Það voru varamennirnir Oumar Diouf (88') og Luqman Hakim Shamsudin (90'+2) sem skoruðu mörkin og gulltryggðu sigur Njarðvíkur sem er komið í sextán liða úrslit.

Marc McAusland var ánægður með frammistöðu liðsins í leiknum en Njarðvíkingar sýndu að þeir hafa mikla breidd. Þeir skiptu fimm leikmönnum inn á í seinni hálfleik og allir léku vel, m.a. skoruðu tveir þeirra.

Luqman fagnar marki sínu sem hann skoraði eftir sendingu frá Oumar Diouf en Diouf var þá nýbúinn að skora sjálfur.
Arnar Hallsson, þjálfari Njarðvíkinga, brosti fyrir ljósmyndara að leikslokum en hann lofaði ljósmyndara í hálfleik að það myndi ekki þurfa framlengingu ... og stóð við það.

McAusland vonast til að mæta Keflavík í næstu umferð en það myndaðist frábær stemmning þegar þessi lið mættust í bikarleik á síðast tímabili. Njarðvík gerði sér þá lítið fyrir og sló Keflavík út og Marc vonar að núna fái þeir heimaleik. „Þeir vilja líka örugglega hefna sín,“ sagði Marc m.a. í viðtali við Víkurfréttir eftir leik. Viðtalið er í spilaranum hér að neðan og myndasafn sem Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók á leiknum.

Njarðvík - KFA (4:1) | 32 liða úrslit 20. apríl 2023