Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Vonast eftir blíðu til að klára 200 golfhringi á árinu
Haukur á sínum uppáhaldsstað, Hólmsvelli í Leiru um síðustu helgi.
Fimmtudagur 7. desember 2017 kl. 13:00

Vonast eftir blíðu til að klára 200 golfhringi á árinu

-Haukur Guðmundsson lék 108 holur í blíðunni um síðustu helgi og nálgast 200 hringja markmiðið. Búinn með rúmlega þrjú þúsund holur á árinu

„Markmiðið var að ná tvöhundruð golfhringjum á árinu en það er að verða tæpt,“ segir Haukur Guðmundsson, kylfingur í Golfklúbbi Suðurnesja, en hann gerði sér lítið fyrir og fór sex golfhringi í haustblíðunni um síðustu helgi. Hann lék þrjá hringi á laugardag og aftur þrjá á sunnudag.

Haukur gerði gott betur en það því hann nánast hljóp hringina. Miðað við mælingu smáforrits í símanum hans var hann 4,56 klst. með hringina þrjá á laugardag en gerði gott betur á sunnudag þegar hann var aðeins 4.06 klst. með hringina þrjá. „Ég var með burðarpoka fyrri daginn en notaði rafmagnskerruna á sunnudag. Þá gat ég oft hlaupið á eftir henni. Vinir mínir voru að stríða mér og segja mig Forest Gump golfsins. Veðrið var frábært á sunnudag og ég endaði bara á léttum buxum og stuttermabol. Alveg magnað nema að ég var með miklar harðsperrur á mánudaginn,“ segir kylfingurinn sem setti sér fljótlega markmið á árinu að ná 200 hringjum. Hann hefur gert ýmislegt til að ná því markmiði, leikið golf flesta daga ársins, flesta á heimavellinum í Leiru en marga úti á landi og svo í útlöndum. Hann bætti síðan við tveimur hringjum á þriðjudaginn þó það væri smá frost. Þá var hann búinn með 177 hringi á árinu. Það gera 3.186 holur. „Ég ætla allavega að ná 182 hringjum. Það þýðir golf annan hvern dag allt þetta ár. Við sjáum hvað setur með veðrið í desember. Spáin er ekki allt of góð næstu daga en ég vona það besta.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar Haukur er spurður út í eftirminnilegasta hringinn á árinu segir hann að margir hafi verið mjög skemmtilegir en líklega standi upp úr hringur á Panther Lake vellinum á Orange County svæðinu í Orlando. Þar séu tveir mjög flottir golfvellir og frábært æfingasvæði og aðstaða.

Á Facebook-síðu kappans má sjá að hann hefur komið víða við. Hann hefur leikið golf á flestum landshornum á árinu en aðspurður segist hann ekki ætla að leika svona mikið á næsta ári. En hefur hann ekki enn farið holu í höggi? „Nei, ég hef oft verið nálægt en ekki nógu nálægt greinilega. Ég hef hins vegar verið með fjórum kylfingum þegar þeir hafa náð draumahögginu. Það hlýtur að fara að koma að mér,“ sagði Haukur.

Hér er Haukur með Guðfinni félaga sínum á 14. teig á Kiðjabergsvelli í Grímsnesi.

Það er ekki alltaf sól og blíða. Haukur með félögum sínum í rigningu í meistaramóti GS sl. sumar.

Haukur með Skúla og Óskari vinum sínum í haustblíðu í Leirunni.

Haukur fór all nokkra hringi í útlöndum á árinu, hér er hann í Bandaríkjunum.

Bergvíkin, ein frægasta hola landsins í desember 2017 og gott nesti.