Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Von á um 200 stuðningsmönnum Keflavíkur á leikinn
Fimmtudagur 2. ágúst 2007 kl. 11:07

Von á um 200 stuðningsmönnum Keflavíkur á leikinn

Annar leikur Keflavíkur og Midtjylland í undankeppni UEFA keppninnar í knattspyrnu fer fram í Herning á Jótlandi í Danmörku í dag. Fyrri leik liðanna lauk með 3-2 heimasigri Keflvíkinga. Leikurinn í dag hefst kl. 19:00 ytra eða kl. 17:00 að íslenskum tíma.

Keflavíkurliðið hélt til Danmerkur á þriðjudag og fór á æfingu á SAS Arena, 12.000 manna leikvangi Midtjylland í gær en leikvangurinn hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga og verður vígsluathöfn fyrir leikinn í kvöld. Völlurinn hefur á að skipa glæsilegum risaskjám eins og þekkist á stærri völlum í Evrópu og víðar svo von er á góðri stemmningu á leiknum í kvöld.

Jón Örvar Arason einn fylgdarmanna Keflavíkurliðsins sagði í samtali við Víkurfréttir að von væri á um 200 stuðningsmönnum Keflavíkur á leikinn því margir Suðurnesjamenn væru búsettir í Herning eða skammt þar frá. Bikarmeistararnir verða því ekki einir á báti í dag er þeir mæta fyrnasterku liði Midtjylland.

Eins og áður hefur verið greint frá fór markvörðurinn Ómar Jóhannsson ekki með Keflavík til Danmerkur þar sem hann og unnusta hans eiga von á barni en Jón Örvar tjáði Víkurfréttum að allir aðrir leikmenn liðsins væru klárir í slaginn. Reyndar meiddist Nicolai Jörgensen smávægilega á æfingu í Danmörku í gær en hann mun hafa tjáð þjálfurum Kelfavíkurliðsins að hann myndi spila leikinn á hækjum ef þessi þyrfti með.

Núna ættu liðsmenn Keflavíkur að vera á leið í hádegismat og að honum loknum tekur við hvíld fram að leik og mun liðið síðan fara saman í rútu að leikvanginum um einum og hálfum tíma fyrir leik.

Víkurfréttir munu fylgjast með gangi mála í Danmörku og verður greint frá helstu atburðum leiksins eins fljótt og auðið er.

 

Mynd: SAS Arena í Herning á Jótlandi í Danmörku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024