Von á leikmönnum til Keflavíkur
Nú er félagsskiptaglugginn við það að lokast í fótboltanum og Keflvíkingar eru í óða önn að reyna að styrkja hóp sinn fyrir lokaátökin í Pepsi deildinni. Í samtali við Víkurfréttir sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga að von væri á 1-2 leikmönnum til liðsins en ekkert væri enn frágengið. „Ég get ekki tjáð mig um það að svo stöddu. Það er ekkert öruggt fyrr en búið er að skrifa undir,“ segir Kristján sem vonast til að þétta raðirnar og bæta við sig reynslumiklum mönnum sem hugsanlega geta hjálpað til í baráttunni.
Á dögunum létu Keflvíkingar unga og efnilega leikmenn fara yfir til Njarðvíkinga, en þeir Ásgrímur Rúnarsson og Theódór Guðni Halldórsson voru lánaðir yfir til Njarðvíkinga út tímabilið. Jón Tómas Rúnarsson fór þá hina leiðina, frá Njarðvík yfir til Keflavíkur en hann er yngri bróðir Ásgríms. Kristján segir ástæðuna fyrir brottför þeirra vera að nú séu eldri leikmenn að koma inn eftir meiðsli og von sé á því að þeir komi inn í liðið. Nú þegar hefur Einar Orri Einarsson leikið eftir erfið meiðsli og von er á Magnúsi Þorsteinssyni og Ómari Jóhannssyni á grasið á næstunni.
Næsti leikur Keflvíkinga er þann 7. ágúst gegn Víkingum Ó. á Nettóvellinum í Keflavík. Kristján segir að leikir sem þessir séu oft nefndir sex stiga leikir en þetta sé aðeins einn af þeim 10 leikjum sem eftir eru í sumar. Hann viðurkennir þó að framundan séu tveir mikilvægir gegn liðum sem eru við botn deildarinnar en Keflvíkingar heimsækja Fylkismenn aðra helgi. Spennandi verður að fylgjast með því hvað gerist á næstu dögum en von er á tíðindum úr herbúðum Keflvíkinga á næstunni.