Voga-Þróttur lék í búningum Grindavíkur
	Þróttur í Vogum lék á laugardag við Einherja á Vopnafirði. Liðin eru jöfn að stigum í 4. til 5. sæti 3. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu með 19 stig hvort.
	Leikurinn endaði með 1:1 jafntefli. Það sem vakti helst athygli í leiknum var að Þróttur lék í bláum búningum Grindavíkur. Aðalbúningur Þróttar er appelsínugulur, sem er alls ekki algengur litur á knattspyrnubúningum. Einherji leikur einnig í appelsínugulum og þar sem þeir voru á heimavelli var brugðið á það ráð að fá lánaða bláa búninga frá Grindavík.
	Á fésbókinni hjá Þrótti segir að Vopnafjörður sé mikill knattspyrnubær og þar þyki fólkinu vænt um félagið sitt. Þróttur fékk einnig alvöru stuðning á leiknum og eru þeir þakklátir fyrir það.
	
	
				
	
				


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				