Visa-Bikar: Myndir og umfjöllun
FJÖLNIR- KEFLAVÍK 3-4
Keflavík mátti þakka sínum sæla fyrir að hafa sloppið í gegnum 32-liða úrslit Visa-bikarsins þegar þeir lentu í kröppum dansi gegn 1. deildarliði Fjölnis í Grafarvogi. Hinn tvítugi Atli Guðnason olli varnarmönnum bikarmeistaranna miklum vandræðum og kom hann Fjölni tvisvar yfir með mörkum sitthvoru megin við mark Hólmars Rúnarssonar.
Guðmundur Steinarsson jafnaði hins vegar og kom sínum mönnum yfir rétt fyrir hálfleik með enn einum þrumufleyg úr aukaspyrnu.
Tómas Leifsson jafnaði metin fyrir Fjölni í upphafi seinni hálfleiks en Stefán Arnarson tryggði Keflavíkingum sigur á 69.mínútu.
Ljóst er að Keflvíkingar verða að þétta varnarleikinn fyrir næstu umferð ef þeir ætla sér að verja titilinn, en til gamans má geta að þeir fengu ekki eitt mark á sig í bikarkeppninni í fyrra.
Gestur Gylfason meiddist í leiknum og er tæpur fyrir leikinn gegn Fylki á fimmtudaginn.
STJARNAN-GRINDAVÍK 0-2
Grindvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með Stjörnuna og unnu nokkuð léttan sigur 0-2. Paul McShane skoraði fyrsta mark leiksins á 21. mínútu og Magnús Sverrir Þorsteinsson bætti öðru við á lokamínútum leiksins.
VÍÐIR-FH 0-5
Víðismenn áttu litla möguleika til að standa uppi í hárinu á feikisterku liði FH, en náðu þó að halda aftur af þeim í fyrri hálfleik. Meistararnir komust yfir með 2 mörkum í upphafi leiks, annað kom úr vítaspyrnu Tryggva Guðmundssonar á 6. mínútu og hitt skömmu síðar þegar markvörður Víðis missti frá sér skot FH úr aukaspyrnu og Jónas Grani Garðarsson skoraði úr teignum. Ekki var meira skorað fram að hálfleik þar sem Víðismenn hristu af sér taugaveiklunina og stöðvuðu alla sóknartilburði FH.
Í síðari hálfleik var greinilega dregið nokkuð af heimamönnum og gengu FH-ingar fljótt á lagið og bættu við þremur mörkum í viðbót. Þar voru Tryggvi og Jónas að verki ásamt því sem Ásgeir Gunnar Ásgeirsson rak síðasta naglann í kistuna.
Það má hins vegar hrósa Víðismönnum fyrir að hafa leikið til sigurs og reyndu þeir virkilega að spila skemmtilegan fótbolta þrátt fyrir ofureflið.
Dregið verður í 16-liða úrslitum síðar í dag.
Myndasafn frá 32-liða úrslitunum hefur verið set inn á vefinn og má finna efst á síðunni.
Myndir: Hilmar Bragi, Þorgils, Hallgrímur Indriðason og Jón Örvar Arason