Vinn pabba alltaf
Elvar Már Friðriksson, hinn 17 ára gamli leikstjórnandi Njarðvíkinga kom heldur betur á óvart í vetur í Iceland Express-deild karla í körfuboltanum. Hann leiddi liðið í úrslitakeppnina þrátt fyrir hrakspár um fallbaráttu. Hann var kjörinn í Stjörnuleikinn og á lokahófi KKÍ var hann kjörinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Á síðasta árinu eða svo stækkaði Elvar um u.þ.b. 10 sentimetra en það hjálpaði honum sannarlega mikið í baráttunni í úrvarlsdeild. Þessi rólyndispiltur er þó hvergi banginn þegar hann stígur inn á völlinn.
Markmiðið fyrir tímabilið var í raun bara að ná í liðið og komast í 12 manna hóp,“ segir Elvar Már. „Ég er búinn að æfa mikið aukalega og það sýnir sig að það er að skila sér,“ en Elvar segir það mikinn heiður að hafa verið kjörinn efnilegastur á lokahófinu.
„Maður vildi ná sér í smá reynslu og svo láta að sér kveða á næstu árum. Síðan fæ ég tækifæri og átta mig á því að ég er ekkert verri en margir af þessum gaurum. Traustið frá þjálfurunum varð þess valdandi að ég fæ aukið sjálfstraust,“ en Elvar byrjaði alla leiki Njarðvíkinga á tímabilinu og lék rúmar 30 mínútur í leik. „Ég reiknaði alls ekki með því,“ en Elvar var eins og áður segir u.þ.b. 10 sentimetrum minni fyrir ári síðan og hann er vanur því að vera minnstur á vellinum. „Þessum vaxtarkipp fylgdi styrkur og maður lagði harðar að sér við æfingar. Leikur minn hefur einnig breyst eftir þennan kipp. Ég get farið meira inn í teig. Áður var ég ragari við að sækja á stóru strákana í teignum, maður var bara blokkaður. Aðallega var ég fyrir utan þriggja stiga línuna,“ en Elvar var alls óhræddur við að láta vaða þar fyrir utan í vetur en hann skaut tæpum 6 þriggja stiga í leik. „Ég tek þau skot sem bjóðast og lít á það þannig að það sé nú betra að skjóta á körfuna en að tapa boltanum. Maður á að skjóta með sjálfstrausti og setja þetta niður,“ segir Elvar en hann segir sinn helsta styrkleika vera að skora á opnum velli eða í hraðaupphlaupum.
En er velgengnin eitthvað að breyta þér?
„Nei það get ég ekki sagt. Það fer ekkert úr eðlilegum farvegi hjá mér,“ en hann segist ekki fá mikla athygli vegna körfuboltans.
Engin pressa frá pabba
Njarðvíkingurinn Friðrik Ragnarsson, faðir Elvars var ákaflega farsæll leikmaður og þjálfari, en finnur Elvar fyrir einhverri pressu vegna þess?
„Það er engin pressa frá honum. Bara frá sjálfum mér, ég við að standa mig og ná eins langt og ég get.“ Elvar sem segist vera frekar feiminn og rólegur utan vallar segist þó vera með sama keppnisskapið og pabbi sinn sem er mikill keppnismaður. „Ég og Ragnar yngri bróðir minn erum með sama keppnisskapið. Ég þoli illa að tapa.“ Þeir bræður spila mikið gegn hvor öðrum og segist Elvar jafnan hafa betur. „Þessir leikir enda yfirleitt ekki vel,“ segir hann og hlær. „Hann á ekki roð í mig ennþá,“ segir Elvar kokhraustur en hann telur bróður sinn vera alveg að ná sér enda er hann efnilegur leikmaður. En gegn pabba, hvor vinnur þar? „Ég vinn hann alltaf,“ segir Elvar og brosir en það er spurning hvort Friðrik verði ánægður við að lesa þetta.
Var ekkert skrítið að hafa pabba sem þjálfara?
„Það var stundum erfitt jú. Svo vandist það en hann kemur ekkert öðruvísi fram við mig en aðra leikmenn. Hann er jafn harður við alla og þolir engan aumingjaskap.“
Æfir tvisvar til þrisvar á dag í sumar
Hvernig er svo framhaldið hjá þér, hvert stefnirðu?
„Ég hef hugsað mér að vera 1-2 ár áfram í Njarðvík og reyna síðan að komast til Bandaríkjanna í háskóla. Þar get ég náð mér í góða menntun og bætt mig sem körfuboltamann. Markmiðið er að ná eins langt og maður getur, það hefur alltaf verið draumurinn að komast út.“ Elvar ætlar að leggja hart að sér til þess að vera enn betur undirbúinn ef hann kemst út. Hann mun æfa tvisvar til þrisvar á dag flesta daga í sumar og ætlar að styrkja sig vel. „Ég vil bæta styrkinn, sprengikraft og stökkkraft,“ en Elvar hefur jafnan verið með góða tækni. „Ég hef alltaf unnið mikið í tækni og skotum enda var ég alltaf minni en aðrir, og er enn,“ segir hann og hlær. Elvar ætlaði sér að fara til Bandaríkjanna og spila í menntaskóla þar en hætti við það eftir að ljóst yrði að hann fengi tækifæri hjá meistaraflokki Njarðvíkur. Það stóð til boða að komast að hjá skóla úti en Elvar taldi betra að spila í úrvalsdeild hér heima. „Maður verður að vera nógu góður til að komast þangað út. Ég vil ekki fara bara til þess að sitja bara á bekknum.“
Hafa önnur lið sýnt þér einhvern áhuga?
„Nei, ég hef líka gefið það út að ég ætla að vera í Njarðvík.“ Elvar hefur verið frá fimm ára aldri í kringum meistaraflokk og býr vel að því að eigin sögn. „Pabbi var auðvitað í meistaraflokki og síðan var ég vatnsberi í mörg ár. Ég held að það sé gott fyrir unga leikmenn að fá að vera í kringum svona andrúmsloft eins og er í meistaraflokki.“ Elvar telur árangur Njarðvíkurliðsins vera ásættanlegan í vetur og hann segir að liðið ætli sér að gera enn betur á næsta ári.
Er ekkert erfitt að vera hálfgerður leiðtogi í liðinu aðeins 17 ára gamall?
„Ég er nokkuð vanur því. Ég hef spilað stöðu leikstjórnanda og hef þar af leiðandi alltaf verið leiðtogi.“ Elvar er frekar feiminn utan vallar en það breytist þegar hann stígur inn á völlinn. „Ég held að það sé bara keppnisskapið. Skiptir engu með, eða gegn hverjum maður er að spila, maður vill bara vinna.“
Yfirheyrsla, hvað er í uppáhaldi hjá Elvari?
Bíómynd: Kontraband sá ég síðast í bíó. Ég er ekki mikið að horfa á bíómyndir.
Maturinn: Hamborgarhryggur
Drykkur: Dr. Pepper
Lið í NBA: Oklahoma City Thunder
Enska: Manchester United
Þáttur: Breaking Bad, pabbi og Ragnar horfa mikið á þann þátt.
Skyndibiti: Subway
Fremsti körfuboltamaður í heiminum: LeBron James.
Hlutur: Tölvan mín
Flík: Njarðvíkurbúningurinn
Eftirlætis íþróttamaður: Chris Paul er fyrirmyndin
Bókin: 10.10.10. Logi Geirs, klikkar ekki.
Tónlist: Frank Ocean þessa stundina, en annars hlusta ég á alls konar.