Vill stækka körfuknattleiksíþróttina
„Þetta myndi ekki ganga upp nema vera með alla þá fjölmörgu sjálfboðaliða um allt land sem eru tilbúnir að fjalla um leikina,“ segir Keflvíkingurinn Davíð Eldur Baldursson sem hefur rekið vefinn Karfan.is síðan 2016. Hér eftir í greininni, verður Karfan notað og orðið fallbeygt, þegar verið er að tala um karfan.is.
Davíð ólst upp hjá ömmu sinni og afa, gekk í Myllubakkaskóla og var í síðasta árganginum sem fór í Holtaskóla þar sem allur árgangurinn var saman. Davíð fór svo í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en var byrjaður að venja komur sínar þangað áður en sjálf skólagangan hófst. „Það kom ekkert annað til greina en fara í FS, afi kenndi þar til fjölda ára og amma vann um tíma þar líka. Ég var mikið með afa þar þegar ég var yngri [afi og amma Davíðs, sem ólu hann að mestu upp, voru Sturlaugur Helgi Ólafsson og Ólöf Björnsdóttir]. Ég kláraði samt ekki FS, fór í Iðnskólann í Reykjavík og í Kvikmyndaskólann, ætlaði að verða einhver listamaður. Ég vann aðeins við kvikmyndagerð í alls kyns lausamennsku en svo fór ég í Háskóla Íslands þegar ég var orðinn 25 ára gamall. Ég kláraði grunnnám stjórnmálafræði og er búinn með meistarapróf í alþjóðasamskiptum, sömuleiðis kennsluréttindi og hef lítillega kennt í framhaldsskóla en er að vinna sem grunnskólakennari í Breiðagerðisskóla í dag. Ég er umsjónarkennari á miðstigi og er að kenna börnum sem eru á sama aldri og mín börn, það hefur ákveðna kosti. Ég kenni íslensku og upplýsingatækni en er aðallega að kenna þeim á lífið.“
Karfan.is
Davíð fékk snemma áhuga á körfubolta og æfði upp yngri flokkana í Keflavík, hann spriklar ennþá í „bumbubolta“ en fyrir hátt í tíu árum gat hann sinnt þessu áhugamáli í gegnum Körfuna sem blaðamaður. Eins og nafnið ber með sér, fjallar vefsíðan um körfuknattleik og þá mest um íslenska boltann. Síðan var sett í loftið árið 2005, stofnendur voru Njarðvíkingarnir Jón Björn Ólafsson, Davíð Ingi Jóhannsson, Ingvi Steinn Jóhannsson og Hjörtur Guðbjartsson. Fimmti Njarðvíkingurinn, Skúli Sigurðsson, kom að tæknimálum ásamt því að skrifa á vefinn.
Davíð Eldur var byrjaður að fjalla um leiki fyrir Körfuna en bauðst svo að taka við síðunni árið 2015. „Ég var búinn að vera fjalla um leiki og skrifa fyrir Körfuna í tvö ár þegar breytingar urðu og mér og öðrum stóð til boða að taka við síðunni. Ég þurfti ekkert að hugsa mig lengi um en á þessum tíma voru vinsældir körfuknattleiks á Íslandi að stóraukast, meðal annars vegna aukinnar umfjöllunnar. Búið sem var skilið eftir fyrir okkur var einnig mjög gott, þar sem þeir Jón Björn, Skúli og Hörður, sem voru með þetta á sínum herðum þá, höfðu verið gífurlega duglegir. Þeir eru reyndar enn þann dag í dag alltaf að skrifa eitthvað eða dekka leiki fyrir Körfuna, aðdáun mín á dugnaði þeirra og festu verður seint lýst með orðum. Við gerðum eiginlega engar breytingar á vefnum þannig séð, fyrir utan kannski útlit, en áfram snýst þetta bara um að fjalla um körfubolta. Þetta myndi ekki ganga upp nema vera með alla þá fjölmörgu sjálfboðaliða um allt land sem eru tilbúnir að fjalla um leikina og senda efni en svo þarf auðvitað að koma því á vefinn, ég sé að mestu um það. Ég hef ennþá mjög gaman af þessu, er alls ekkert orðinn þreyttur en neita því ekki að undir lok tímabils kemur stundum upp smá þreyta. Ég er bara nokkuð orkumikill yfir höfuð og svo er ég mátulega kærulaus. Ef ég væri það ekki væri ég endalaust að bögga mig ef hlutirnir eru ekki gerðir fullkomlega. Það er bara ekki hægt að fara fram á það, hvorki frá mér né þeim sem eru að sinna þessu í sjálfboðastarfi. Ef það tekst ekki að manna einhvern leik er það bara þannig. Ef ég myndi ætla fara vera með samviskubit yfir slíku þyrfti ég að hætta þessu strax. Við erum öll að gera okkar besta og ef það dugar ekki er það bara þannig,“ segir Davíð.
„Blessunarlega hefur körfuboltasamfélagið einnig verið með síðunni í liði. Leikmenn, þjálfarar og aðrir tengdir boltanum hafa nánast alltaf tekið vel í það sem við höfum viljað gera. Það kostar þó alveg það að við getum ekki leyft okkur að gera hvað sem er. Við erum fyrir löngu búin að sætta okkur við að vinna engin blaðamannaverðlaun fyrir einhverja rannsóknarblaðamennsku ef við fáum áfram að fjalla um íþróttina á þennan hátt,“ bætti hann enn frekar við.
Á tíma sínum sem ritstjóri hefur Davíð séð mikið af skemmtilegum liðum og atvikum tengdum körfunni en allra minnistæðast segir hann vera titlana sem liðin vinna á vorin og þau stóru skref sem íslensku landsliðin hafa tekið á þessum árum. „Langstærsta afrekið sem unnið hefur verið á þessum síðustu árum var karlamegin, að horfa á KR vinna sex titla í röð, gjörsamlega stórkostlegt afrek sem ég get lofað að verði ekki leikið eftir. Kvennamegin eru tveir titlar sem koma fyrst upp í hugann, Keflavík 2017 og Njarðvík 2022 en báðir unnust titlarnir að miklu leyti vegna ungra leikmanna sem flestir höfðu verið aldir upp hjá félögunum. Einnig eru margir eftirminnilegir leikmenn frá þessum tíma, bæði íslenskir og erlendir. Mér fannst Damon Johnson alltaf geggjaður þegar ég var yngri, svo hafði ég mjög gaman af því þegar hann kom aftur til Keflavíkur fjörgamall árið 2015. Sama ár var Keflavík með mjög eftirminnilegan leikmann kvennamegin, Carmen Tyson Thomas, stórkostlegur leikmaður og ekkert eðlilega hress. Fyrir utan einhverjar gamlar Keflavíkurhetjur sem unnu sína titla áður en ég fór að fjalla um íþróttina, myndi ég segja að mínir uppáhaldsleikmenn hafi verið Arnar Freyr Jónsson úr Keflavík og Guðmundur Jónsson úr Njarðvík. Stórkostlegir keppnismenn sem lögðu gjörsamlega allt í sölurnar fyrir sín lið. Ótrúlega margir flottir leikmenn í íslenskum körfubolta í dag samt líka sem maður hefur verið svo heppinn að fá að fylgjast með alveg frá því að þeir voru í yngri landsliðum Íslands. Bræðurnir úr Þorlákshöfn, Styrmir Snær og Tómas Valur Þrastarsynir, koma fyrst upp í hugann. KR-ingarnir Almar Orri Atlason og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Hilmar Péturs og Hilmar Smári Hennings úr Hafnarfirði, Sara Rún Hinriksdóttir og Jana Falsdóttir úr Keflavík, Jón Axel og Bragi Guðmundssynir úr Grindavík og Tryggvi Snær Hlinason úr Þór Akureyri. Allt leikmenn sem gaman er að fylgjast með á vellinum. Einnig hefur verið frábært að fylgja eftir frábærum ferli Elvars Más Friðrikssonar sem hefur einhvern veginn alltaf komið manni á óvart með því að verða betri og betri. Spilar í sterkum deildum í Evrópu og er alltaf mættur í landsliðið.“
Þá segir Davíð marga skemmtilega viðmælendur hafa orðið á hans vegi á þessum árum sem hann hefur verið með Körfuna. „Þau skipta líklega hundruðum sem beðin hafa verið um viðtöl síðan ég byrjaði á þessu. Eiginlega öll skemmtileg þannig séð og við erum þakklát fyrir öll þau komment sem við fáum. Þau allra bestu eru oftar en ekki við þau sem eru annaðhvort aðeins eldri, eru nálægt því að hætta, eða þau sem eru kannski ekki með mestu reynsluna og eru kannski að fara í sín fyrstu viðtöl. Það er eins og einhvers staðar þarna á milli detti leikmenn, þjálfarar og aðrir í að vera of öruggir og þá þora þeir að segja minna. Til þess að nefna einhver sem eru alltaf góð þá væru það Logi Gunnarsson úr Njarðvík, Ægir Þór úr Stjörnunni, Sveinbjörn Claessen úr ÍR og Dagbjört Dögg Karlsdóttir úr Val. Maður getur alltaf treyst á að fá mjög heiðarleg svör frá þessum leikmönnum og það skiptir engu máli hvort um sigur eða tap er að ræða. Verð að nefna Máté Dalmay, þjálfara Hauka, líka, hann er líklega einhver skemmtilegasti viðmælandi deildanna í dag. Það er einhver tugur viðtala við hann inni á YouTube-síðu Körfunnar sem eru öll eins og sjálfstæð listaverk,“ segir Davíð.
Þá segir Davíð það einnig hafa verið eftirminnilegt að fylgja eftir miklum uppgangi íslensku landsliðana síðustu ár en Ísland hefur á síðustu átta árum í tvígang tryggt sér sæti á lokamóti og eru yngri landslið nú reglulega í bestu deildum Evrópumóta. „Það er í raun og veru alveg ótrúlegt hvað Ísland hefur verið að gera síðustu árin með landsliðin sín, hafa oftar en ekki náð að skipa sér á bekk með þeim bestu þrátt fyrir að vera smáþjóð sem í ofanálag fær miklu minni aðstoð frá ríkinu en þær þjóðir sem keppt er við. Það leggjast einhvern veginn allir á eitt, bæði vel stjórnað af sambandi sem vinnur dag og nótt að því að allt sé í lagi og þjálfurum og leikmönnum sem gefa fríin sín eða taka sér frí frá vinnu/skóla til þess að leika fyrir Ísland.“
Fleiri á vagninn
Davíð og félagar vilja alltaf fá nýja aðila á vagninn, bæði fréttaritara en líka aðila sem eru flinkir að vinna á tölvu því það þarf alltaf að setja efnið inn á vefinn. Eins vill Davíð fá fleiri hlaðvarpsþætti [podcast] um körfubolta. Fyrir þann sem hefur áhuga á körfubolta er hér kjörið tækifæri.
„Tækninni fleytir alltaf fram, í dag geta í raun allir verið blaðamenn, þ.e. að taka viðtal því símarnir eru orðnir svo góðir og ná góðum hljóð- og myndgæðum og fyrir umfjallanir eða aðrar skriftir er nóg að eiga ódýrustu gerðina af tölvu. Við erum einnig með nokkra hlaðvarpsþætti en ég vil sjá fleiri á rásinni hjá okkur. Það er hægt að fjalla um körfubolta út frá svo mörgum hliðum, fara í söguna o.s.frv. Svo erum við ekki öll eins sem betur fer, sumir geta ekki hugsað sér að taka viðtal eða tala í hlaðvarpi en eru frábærir að vinna í tölvu og kannski góðir í að skrifa og setja efni inn á síðuna. Ég hef verið einn í því í kringum leiki og neita því ekki að ég væri til í að fá fleiri með mér í það verkefni, þá gæti fjölskyldan átt möguleika á betri samvistum við mig á leikkvöldum.“
Eins og áður kom fram er vinnan við Körfuna öll unnin í sjálfboðastarfi, það er ástríðan sem drífur menn áfram. Davíð er greinilega með sömu gen í sér og afi sinn og amma sem bæði eru fallin frá, alla vega hefur hann tileinkað sér margt frá þeim.
„Mínar helstu fyrirmyndir í lífinu eru afi og amma, þau unnu alltaf baki brotnu og gáfu líka mjög mikið af sér í formi félagsstarfa, þau gerðu alltaf mjög mikið fyrir samfélagið. Ég lít svolítið þannig á þessa vinnu við Körfuna. Ég vil trúa að ég sé að láta gott af mér leiða, þó svo að ég geri mér grein fyrir á sama tíma að hér sé ekki verið að kljúfa atómið. Þetta er áhugamál og ég er að gera þetta af ástríðu. Sjálfboðastarfið er á vissan hátt á undanhaldi að einhverju leyti því það er búið að selja okkur þá hugmynd að maður verði að fá borgað fyrir allt sem maður gerir en þá finnst mér ekki vera pláss fyrir ástríðuna. Auðvitað má ástríða og fjárhagslegur ábati eiga samleið, það þarf þó ekkert að vera alltaf og í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. Ég elska að hitta aðra sem eru í sinni ástríðu, ef áhuginn liggur saman verða samskiptin svo óþvinguð, opin og skemmtileg, það leiðir venjulega til góðra hluta. Ég hef mjög gaman af því sem ég er að gera í dag, kennslan á vel við mig og hver veit, kannski verður möguleiki fyrir einhvern að gera vefsíðu Körfunnar eða aðra sambærilega að heilsársstarfi í framtíðinni þó maður hafi sjálfur aldrei viljað gera það. Íþróttin er alltaf að stækka og á endanum hlýtur það að gerast. Mér þykir mjög gaman að sjá marga af þeim sem hafa stigið sín fyrstu skref hjá okkur á Körfunni, verða betri og fá vinnu við það sem þeir elska að gera, hvort sem það hefur verið tengt fjölmiðlum eða öðru tengdu íþróttinni,“ sagði Davíð Eldur að lokum.