Vill sjá Guðjón Skúlason bóna bílinn sinn
Jón Björn Ólafsson er að ryðja sér til rúms sem einn af helstu körfuboltaspekingum á Íslandi enda er hann ritstjóri og stofnandi vefsíðunnar Karfan.is sem er vinsæl meðal áhugamanna um íþróttina. Við fengum Jón til að spá í spilin varðandi bikarleikina sem fara fram á morgun.
Keflavík – Tindastóll
„Vert verður að fylgjast með Val Orra Valssyni stjórna Keflavíkurliðinu í sínum fyrsta bikarúrslitaleik í meistaraflokki. Valur Orri er sigursæll leikmaður úr yngri flokkum en er nú kominn upp á stærsta sviðið hér heima og fróðlegt að sjá hvernig einn af efnilegustu leikmönnum landsins spjarar sig við svona aðstæður. Allar líkur eru á því að Jarryd Cole ætti að geta fundið sig vel í þessum leik, stóru leikmenn Tindastóls munu lenda í vandræðum með Cole ef hann mætir í sparigallanum eins og í leiknum gegn KR. Maður leiksins er svo að sjálfsögðu Magnús Þór Gunnarsson, honum mun líða best allra þarna í Höllinni og reynast Keflvíkingum mikilvægur enda með stáltaugar og gríðarlega reynslu. Keflavík gæti lent í vandræðum með Maurice Miller, þó gætum við séð Charlie Parker dekka hann, það gekk vel að hafa Parker á Brown í KR leiknum svo Sigurður þjálfari gæti brugðið á það ráð að setja stóran skotbakvörð á leikstjórnanda Tindastólsmanna, sjáum til.
Miðað við fyrri leiki Keflavíkur og Tindastóls á leiktíðinni þá verður Keflavík bikarmeistari en ég er búinn að veðja við Guðjón Skúlason og auðvitað fékk Guðjón að veðja á sína menn, ég held því með Tindastól á laugardag enda eru bílþrif í boði fyrir sigurvegara veðmálsins. Guðjón, þú Mjallar-bónar bílinn minn – ég verð með græjurnar með mér í Laugardalnum!“
Njarðvík – Snæfell
„Til þessa hafa Njarðvíkingar unnið alla þrjá deildarleiki sína gegn Snæfelli. Eru grænar með tak á Hólmurum, mögulega, en þegar út í svona leik er komið er oftar en ekki margt annað sem ræður för eins og t.d. einfaldlega stærðin og sú athygli sem þessi skemmtilegasti leikur ársins fær. Njarðvík fór síðast í Höllina fyrir tíu árum en Snæfell er þar í fyrsta sinn, tefla samt fram mjög reyndum leikmönnum í Öldu Leif og Hildi Sigurðardóttur en Njarðvíkingar eiga einnig sína reynslubolta í Petrúnellu og Ólöfu svo liðin eru ansi áþekk að þessu leyti.
Ég býst við því að þetta verði leikur hinna stóru skota og þar muni Petrúnella njóta sín sem og Alda Leif. Erlendu leikmennirnir verða iðnir við að klekkja hver á öðrum og því stendur þessi leikur og fellur með þeim íslensku leikmönnum sem stíga munu upp.
Njarðvík finnst mér líklegri sigurvegari að þessu sinni, hreinlega því Snæfell hefur ekki tekist að vinna þær í vetur, “ sagði Jón Björn og bætti við: „Verið dugleg gott fólk við að líta inn á Karfan.is, Korfubolti.net og Leikbrot.is – ódrepandi sjálfboðavinna við að færa ykkur allt það helsta frá körfuboltanum! Stórt LÆK á það.“
Mynd VF: Jón Björn fór mikinn á þorrabóti Keflvíkinga á dögunum