Vill bæta upplifunina í Leiru
Golfklúbbur Suðurnesja fagnar 60 ára afmæli á næsta ári. „Það er kominn tími til að GS landi Íslandsmeistaratitli í höggleik,“ segir Sverrir Auðunsson, nýráðinn framkvæmdastjóri klúbbsins.
Golfklúbbur Suðurnesja er eitt elsta íþróttafélag á Suðurnesjum en klúbburinn fagnar sextíu ára afmæli á næsta ári. Hólmsvöllur í Leiru hefur í áratugi verið einn besti golfvöllur landsins. Sverrir Auðunsson er nýr framkvæmdastjóri GS en hann tók við því starfi í byrjun þessa árs. Hann er uppalinn Keflvíkingur en á grindvíska konu, þau hafa búið í Grindavík undanfarin ár en Sverrir hafði lengi starfað hjá stórfyrirtækinu DHL og verið framkvæmdastjóri undanfarin ár. Hann sá sér leik á borði síðastliðið haust þegar hann sá stöðu framkvæmdastjóra GS auglýsta, sótti um og fékk starfið.
Sverrir hóf störf um áramótin en hvernig kom það til að hann ákvað að venda kvæði sínu svona í kross?
„Ég fann að ég var farinn að íhuga að vilja taka aðra beygju á mínum starfsvetvangi eftir að hafa unnið í 22 ár hjá DHL. Ég sá starfið auglýst í Víkurfréttum og eftir að hafa verið formaður Golfklúbbs Grindavíkur (GG) í nokkur ár og tekið þátt í að stækka þann klúbb og efla, hafði ég tilfinningu fyrir að þetta gæti verið rétta skrefið fyrir mig. Ég fer ekki alltaf troðnar slóðir má segja, t.d. reyni ég alltaf að gera eitthvað sérstakt á afmælinu mínu en þegar ég varð 46 ára fyrir tveimur árum, ákvað ég að spila 46 golfholur það árið á Húsatóftavelli. Á afmælisdeginum í fyrra ákvað ég að skoða Hólmsvöll í Leiru gaumgæfilega og gaf mér góðan tíma til að skoða hann frá öllum mögulegum sjónarhornum. Ég tók mikið af myndum og reyndi að sjá fyrir mér hvort ég væri tilbúinn í að breyta um starfsvettvang og ef svo væri, hvaða breytingum ég myndi vilja koma á. Ég hugsaði málið nokkuð lengi, ræddi við konuna og tók svo ákvörðun um að sækja um framkvæmdastjórastarfið og hér erum við í dag. Það hefur verið mjög gefandi að kynnast svona mörgum nýjum andlitum í nýja starfinu og einnig er ég ánægður með samstarfið við stjórnina sem hefur veitt mér góðan stuðning og svigrúm frá byrjun en ég fann fyrir miklum metnaði frá stjórn GS strax í atvinnuviðtalinu.“
Viljum bæta upplifunina
Sverrir hefur síður en svo setið auðum höndum síðan hann byrjaði. „Ég vildi kafa svolítið ofan í klúbbinn og skoða tölulegar staðreyndir, mér finnst gott að hafa þær fyrir framan mig þegar ég met hlutina. Í dag eru um 670 meðlimir í GS og hefur sú tala nokkurn veginn staðið í stað undanfarin ár, sumir hætt og nýir komið í staðinn en miðað við að rúmlega 20 þúsund íbúar séu í Reykjanesbæ, vil ég sjá fleiri í klúbbum og er það klárlega markmiðið. Ég hafði samband með tölvupósti við alla þá sem hættu því ég vildi reyna átta mig á ástæðunni, af þeim sem sögðu upp aðildinni í ár eru 75% annaðhvort að flytja burt af svæðinu eða það er ákveðnir hlutir í þeirra eigin persónulífi sem kemur í veg fyrir þeirra golfiðkun í sumar.
Ég vil fjölga í klúbbnum og það gerist ekki nema með samstilltu átaki allra þeirra sem koma að GS. Strax þegar ég byrjaði, vildi ég reyna bæta ásýnd vallarins en þeir sem spila reglulega á Hólmsvelli, hafa nú þegar tekið eftir þeim fjölmörgu litlu breytingum sem við höfum ráðist í. Stoltastur er ég af breytingunni við varnargarðinn á fjórðu braut en hann sást ekki fyrir háum hólum sem voru alltaf loðnir og ekki fallegir yfir sumarið. Við létum ýta þessu í burtu og er allt annað að sjá þessa braut í dag. Uppi eru pælingar með að færa teigana nær görðunum, það mun bæta þessa braut enn frekar en fyrir utan þetta höfum við ráðist í fullt af litlum breytingum, t.d. eru allar tröppur upp á teiga núna steyptar í stað viðartrappa sem voru kannski í misgóðu ástandi. Ég vil bæta upplifun kylfingsins og það gerist m.a. með betri ásýnd á vellinum. Það hefur gengið mjög vel með frábærum vallarstjóra, honum Birki og hans starfsfólki og um leið og meðlimir og gestir fá þessa jákvæðu upplifun, eykst jákvæðnin, brosið breikkar og það mun laða að fleiri styrktaraðila og síðast en ekki síst, fleiri meðlimi. Það er ég sannfærður um,“ segir Sverrir.
Vill spila með öllum meðlimum
Þegar Sverrir gegndi formennsku í GG setti hann sér það markmið að spila með sem flestum meðlimum til að kynnast þeim. Að sjálfsögðu er hann með svipuð áform fyrir sumarið en hvernig kylfingur er Sverrir og hver eru markmiðin í sumar?
„Mér fannst þetta rétt skref á sínum tíma, meðlimir GG þurftu að kynnast nýja formanninum og hvar er betra að kynnast kylfingi en úti á golfvelli? Þetta var mjög skemmtilegt og eftir að formennsku minni lauk voru held ég ekki margir sem ég hafði ekki spilað með í GG. Nú þegar hef ég spilað með ellefu GS meðlimum en það er bara nokkuð gott miðað við að ég hef bara getað spilað fjóra hringi í sumar. Bæði hefur verið mjög mikið að gera í nýju vinnunni, fullt af hlutum sem ég þurfti að koma mér inn í svo allur fókus hefur farið í það, svo hefur veðrið nú ekki beint togað í mann.Ég mun kappkosta að spila með sem flestum en svo bryddaði ég upp á nýjung þegar við opnuðum völlinn 19. apríl, degi fyrir sumardaginn fyrsta; ég setti mig í hlutverk ræsis og heilsaði öllum sem spiluðu Hólmsvöllinn þann dag. Svona kynnist maður fólki hægt og bítandi. Varðandi eigið golf, eru markmiðin nú bara raunhæf held ég, að halda mér undir tíu í forgjöf, ég er með 9,5 en lægst fór ég í 7,6. Það er mikil vinna að reka eins stóran og flottan golfklúbb og GS er og allur minn fókus mun fara í vinnuna. Ég mun reyna að taka þátt í einu og einu móti, spilaði t.d. í bikarnum um daginn og er kominn í sextán manna úrslit.“
Hólmsvöllur klæddi sig vel upp fyrir veturinn og kom því sterkur undan honum en hvernig er mótahaldi háttað í sumar?
„Völlurinn fór vel klæddur inn í veturinn má segja en ákvörðun var tekin um að hafa brautirnar við sjóinn sem loðnastar. Því kom völlurinn mjög vel undan vetrinum og við settum okkur það markmið í vetur að við myndum opna völlinn inn á sumarflatir degi fyrir sumardaginn fyrsta, 19. apríl, og eins var það göfuga markmið sett að hafa völlinn í toppstandi þegar fyrsta GSÍ stigamótið yrði haldið, 2.–4. júní. Bæði markmið náðust og ég myndi segja að völlurinn sé í frábæru standi og öll ásýnd alltaf að verða fallegri. Það er endalaust hægt að vera ditta að golfvelli og betrumbæta, það er þægileg tilfinning að sjá atriðin hverfa af „to do list-anum“ hægt og bítandi og um leið að sjá önnur bætast við. Ég var líka ánægður með samstarfið við Reykjanesbæ og Orku náttúrunnar en búið er að setja upp sex hleðslustöðvar við skálann, gott fyrir kylfinga að geta hlaðið bílinn á meðan átján holu hringur er spilaður. Eins erum við komnir með bílastæði fyrir fatlaða en það má ekki gleyma því að skálinn er mikið leigður í allskyns veislur. Þetta er einfaldlega virðisaukandi þjónusta sem bætir alla ásýnd.
Við, eins og flestir klúbbar, höldum okkar stigamót og miðum þau við þriðjudaga. Við erum með átta mót yfir sumarið og þau fimm bestu telja. Það hefur verið góð aukning í Stigamótunum milli ára og aldrei að vita nema Örn Ævar Hjartarson, formaður mótanefndar bryddi upp á einhverjum nýungum með Stigamótin. Kvennagolfið heldur áfram að blómstra hjá GS og eru þær með sinn fasta tíma á mánudagskvöldum frá kl.17 til kl.19. Þar er mikið um skemmtilegar uppákomur en á mánudegi um daginn voru 40 konur mættar til að spila tveggja manna Texas Scramble. Annars erum við ekki með mörg opin mót yfir sumarið, ég vil frekar hafa völlinn opinn fyrir rástíma og golfarar komi og spili völlinn okkar pressulaust án þess að vera í móti. Við erum nú þegar búnir að halda eitt GSÍ mót og munum síðan halda sveitakeppni fyrstu deildar kvenna í lok júlí og höldum sveitakeppni 50+ hjá körlum í lok ágúst.“
Kominn tími á Íslandsmeistara úr GS
Afreksstarfið hjá GS er á réttri leið. „Ég myndi segja að við séum á réttri leið með afreksstarfið okkar en það er Sigurpáll Geir Sveinsson sem stýrir því og hefur gert lengi. Við erum með undir fjórtán ára og 21 árs lið í sveitakeppninni og bæði karla- og kvennaliðið okkar er í fyrstu deild í sínum sveitakeppnum, það er góður árangur. Það er hins vegar kominn tími á að Íslandsmeistarinn í höggleik komi frá Golfklúbbi Suðurnesja, Örn Ævar Hjartarson landaði titlinum 2001 og enn lengra er síðan Karen Sævarsdóttir hampaði titlinum, eða árið 1996. Þess ber þó að geta að Karen hampaði titlinum átta ár í röð, ég efa að það afrek verði nokkurn tíma endurtekið. Þetta er samt allt of langur tími síðan eins stór og öflugur golfklúbbur eins og GS er átti Íslandsmeistara. GS var stofnaður árið 1964 og fagnar því 60 ára afmæli sínu á næsta ári, við státum okkur af einum besta golfvelli landsins, golfvelli sem margoft hefur verið notaður fyrir Íslandsmótið þannig að eigum við ekki að segja að það styttist í að Íslandsmeistari í höggleik komi úr röðum GS,“ sagði Sverrir að lokum.