„Viljið þið ekki endurvekja tippleikinn á Víkurfréttum?“
Hámundur Örn Helgason er heldur betur sjóðandi heitur í tippleik Víkurfrétta, hann gerði sér lítið fyrir á laugardaginn, fékk tólf rétta og tók Grindvíkinginn Bjarka Guðmundsson í bakaríið, Bjarki fékk bara átta rétta. Nokkuð ljóst að Bjarki var ekki stolt grindvískra tippara þessa helgina en aldrei hefur tippleikur unnist með meiri mun. Við þökkum Bjarka samt kærlega fyrir „frábæra“ frammistöðu. M.v. hve mikið var í vinning fyrir þrettán rétta á seðlinum þarsíðasta laugardag, eða rúmar níu milljónir króna, þá voru rúmar 140 þúsund krónur fyrir tólf rétta, mætti áætla að Hámundur væri á grænni grein en því fór víðs fjarri, einungis fengust 1.760 krónur fyrir tólf rétta að þessu sinni, 91 þúsund fyrir þrettán rétta.
„Viljið þið ekki endurvekja tippleikinn á Víkurfréttum?“ spurði Keflvíkingurinn Jón Ásgeir Þorkelsson sem verður næsti áskorandi. Jón Ásgeir hitti blaðamann Víkurfrétta á Réttinum fyrr á árinu og kom með þessa hugmynd sem varð að veruleika. Að sjálfsögðu fær Jón Ásgeir því tækifæri á að spreyta sig. „Ég hef saknað þessa dálks í Víkurfréttum allar götur síðan þetta lagðist af á sínum tíma. Ég hef alltaf verið virkur tippari og sakna sömuleiðis að geta ekki hitt félagana í K-húsinu á Hringbrautinni eins og við gerðum en hef fulla trú á að tipphittingurinn á Brons muni vaxa og dafna. Það var gaman að koma í hádeginu á laugardaginn, hitta aðra og þruma svo á þrettán. Mér gekk reyndar ekki nógu vel, fékk bara níu rétta en lofa betri frammistöðu á móti Hámundi sem ég þekki vel, við höfum verið að tippa saman og ég skora hann hér með á hólm á Brons á laugardaginn! Ég held með West Bromwich Albion í enska boltanum og ástæðan er einföld. Þegar ég flutti til Keflavíkur frá Hellissandi kynntist ég strákum og mér sagt að allir héldu með liði í enska boltanum. Enskan mín var ekki upp á marga fiska svo ég valdi einfaldasta nafnið; WBA,“ sagði Jón Ásgeir.
Hámundur var ekki mikið að gorta sig yfir sigrinum yfir Bjarka. „Ég hafði nú ekki miklar áhyggjur af þessum leik á móti Bjarka, var nokkuð viss um að ég myndi vinna en kannski ekki með svo miklum yfirburðum eins og raun bara vitni. Bjarki og aðrir Grindvíkingar eiga auðvitað um sárt að binda þessa dagana svo ég ætla ekkert að strá neinu salti í sárin hans. Mér líst vel á að mæta Jóni Ásgeir í næstu umferð, við þekkjumst vel og höfum verið að tippa í Ljónagryfjunni til þessa en við munum mæta á Brons á laugardaginn, það er nokkuð ljóst. Ég mun gíra mig extra mikið upp fyrir þennan leik á móti Jóni Ásgeir, ég geri ráð fyrir mun meiri mótspyrnu en gegn Bjarka,“ sagði Hámundur.