Vilja fjölga liðum í þriðju deild karla
Reynir Sandgerði hefur lagt fram tillögu sem verður tekin fyrir á ársþingi KSÍ þann 10. febrúar nk. Tillagan er sú að liðum í þriðju deild karla verði fjölgað úr tíu í tólf. Í dag leika tólf lið í þremur efstu deildum karla í knattspyrnu en tíu í fjórðu deildinni. Reynir féll úr 3. deild í fyrra og leika í riðlakeppni 4. deildar í sumar. Á ársþinginu verður kosið um tillöguna og þá mun koma í ljós hvort liðum verði fjölgað í þriðju deild, þá myndi sú breyting taka gildi sumarið 2019. Fótbolti.net greinir frá þessu.
Greinargerð Reynis
Sú breyting að fara úr tíu þátttökuliðum í tólf á sínum tíma í þremur efstu deildum Íslandsmóts karla hefur heppnast vel að flestra mati. Reynir Sandgerði lék í þriðju deild karla keppnistímabilin 2015, 2016 og 2017 en þar áður lék liðið í tólf liða deildum samfleytt frá árinu 2007. Það er reynsla Reynismanna að tólf liða deild sé mun heppilegri kostur en tíu liða deild. 22 leikir í stað 18 gerir tímabilið þéttara, lítið er um löng hlé á milli leikja. Árið 2017 liðu í þrígang tíu dagar milli leikja liðsins í þriðju deildinni og einu sinni þrettán dagar. Tekjumöguleikar eru meiri þar sem heimaleikir eru ellefu í stað níu. Keppnistímabilið er tveimur vikum lengra í tólf liða deild.