Vilja bjóða í Jónas
Knattspyrnukappinn Jónas Guðni Sævarsson fyrirliði Keflavíkur er með eftirsóttari mönnum í bransanum um þessar mundir. Eftir að hafa leikið afar vel í sumar þrátt fyrir misjafnt gengi Keflavíkurliðsins hafa mörg lið augastað á honum og hafa tvö lið úr efstu deild, Fram og Íslandsmeistarar Vals, gert fyrirspurn um hann hjá stjórn Keflavíkur.
Þetta staðfesti Jónas, sem á eitt ár eftir af samningi sínum, í samtali við Víkurfréttir. „Ég hef ekki heyrt frá neinum, en Keflavík hefur fengið fyrirspurnir frá Fram og Val um að fá að ræða við mig. Þeir hafa ekki fengið leyfi til þess og stjórnin er að hugsa sín mál og sömuleiðis ég, þannig að þetta mál er algjörlega á frumstigi.“
Jónas segist annars lítið vera að hugsa um þetta mál, en hann er líka að leita fyrir sér erlendis. Hann tekur það annars fram að hann hafi ekki haft samband við liðin að fyrra bragði og sé sáttur við stöðu sína hjá Keflavík.
VF-mynd/JBO