Vilborg og Fannar íþróttafólk UMFN 2022
Þann 27. desember var haldin árleg uppskeruhátíð UMFN en hún er tileinkuð öllum sem stunda íþróttir hjá ungmennafélaginu. Veitt eru verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í hverri íþróttagrein félagsins. Auk þess er valið íþróttafólk UMFN 2022 og að þessu sinni fengu körfuboltamærin Vilborg Jónsdóttir og sundkappinn Fannar Snævar Hauksson nafnbótina.
Hver deild valdi innbyrðis það íþróttafólk sem stóð sig best í sinni grein og aðeins þeir einstaklingar komu til greina sem íþróttafólk ársins. „Við erum afar heppin að eiga mikið af framúrskarandi íþróttafólki í þeim greinum sem stundaðar eru hjá félaginu. Félagið stækkar með hverju ári þökk sé ykkur hvort sem þið eruð stuðningsmenn, sjálfboðaliðar, iðkendur, foreldrar eða þjálfarar, þið spilið öll mikilvægt hlutverk og gerið félagið okkar betra,“ segir í tilkynningu UMFN.
Verðlaunahafar úr hverri grein voru þau Logi Gunnarsson og Vilborg Jónsdóttir fyrir körfuknattleiksdeild UMFN, systkinin Heiðrún Fjóla Pálsdóttir og Jóhannes Reykdal Pálsson fyrir glímudeildina, Katla María Brynjarsdóttir og Fannar Snævar Hauksson fyrir sunddeildina, Marc McAusland fyrir knattspyrnudeildina, Jóna Helena Bjarnadóttir fyrir þríþrautardeild, Elsa Pálsdóttir og Benedikt Björnsson fyrir kraftlyftingar og þau Katla Björk Ketilsdóttir og Emil Ragnar Ægisson fyrir ólympískar lyftingar.