Viðtal: Flott að hætta á toppnum
Engir Íslendingar hafa dæmt fleiri handboltaleiki en þeir Gísli og Hafsteinn sem núna leggja frá sér flautuna eftir 34 ár í dómarasætinu
Þeir Hafsteinn Ingibergsson og Gísli H. Jóhannsson eiga að baki langflesta leiki handboltadómara hér á landi. Þeir hófu dómaraferilinn um bílprófsaldur en þá var handboltinn mjög vinsæll á Suðurnesjum. Þegar kom að því að hefja undirbúning fyrir komandi tímabil voru þeir alveg sammála um að nú væri kominn tími til þess að segja þetta gott eftir 34 ár í boltanum.
„Já það er mikill léttir. Þegar maður var búinn að taka þessa ákvörðun og láta fólk vita þá var þungu fargi af manni létt,“ segir Hafsteinn. „Þegar það var kominn tími til þess að byrja enn eitt tímabilið þá fann maður bara ekki þennan neista sem þarf að vera til staðar. Maður er orðinn sannfærður um að þetta hafi verið rétti tímapunkturinn núna. Við vorum ennþá að dæma í efstu deild og það er nokkuð flott að hætta á toppnum. Við vildum ekki vera að slufsast í þessu þangað til að okkur yrði ýtt út,“ bætir hann við. „Við höfum verið að hugsa þetta undanfarin ár. Það var gott að fá að taka þessa ákvörðun sjálfir, ekki að einhver myndi segja við okkur „eruð þið ekki að fara að hætta?“ Þegar þetta var opinbert þá var ljóst að ekki yrði aftur snúið,“ skýtur Gísli inn.
Klökkna við ummælin á samfélagsmiðlum
Þegar blaðamaður spyr hvort þeir hafi endilega þurft að hætta á sama tíma þá eru þeir fljótir til svara. „Já, já það kom aldrei annað til greina,“ segir Gísli. „Það hefur aldrei komið til tals að gera það ekki,“ bætir Hafsteinn við.
Hvernig hafa viðbrögðin verið eftir að þið tókuð þessa ákvörðun?
„Þau hafa verið rosalega góð. Maður sér það helst á Facebook og þegar maður les öll ummælin þá verður maður bara klökkur,“ segir Gísli. „Ég held að konan hafi verið ánægðust með þessa ákvörðun hjá mér,“ segir Hafsteinn og hlær.
Flesta unga iðkendur dreymir um atvinnumennsku í íþróttum og er starf dómarans ekki alltaf það eftirsóknarverðasta. „Ég veit ekki hvað heillaði við starfið. Við tókum prófið til þess að dæma fyrir Keflavík á fjölliðamótum þar sem vantaði dómara. Svo æxlast það að við fundum okkur saman í þessu og fórum út í það að dæma. Svo leiðir eitt af öðru, við förum að fá stærri leiki og keppni og metnaður fer að spila inn í,“ segir Hafsteinn og Gísli tekur í sama streng. Á þessum langa og gæfuríka ferli hafa þeir félagar upplifað flest allt sem íþróttin hefur upp á að bjóða. En er eitthvað sem á eftir að haka við á gátlistanum? „Við hefðum auðvitað viljað verða milliríkjadómarar á sínum tíma. Það var hins vegar smá klúður í dómaranefnd á sínum tíma þar sem þeir gleymdu að tilnefna okkur. Þá duttum við út í 2 til 3 ár og þá vorum við að detta á aldur, rétt um þrítugt,“ segir Gísli.
Gott að þekkjast vel á vellinum
Þeir kumpánar hafa verið vinir frá unglingsárum og tóku dómarapróf í handbolta og fótbolta sem táningar árið 1982. Það gerðu þeir aðallega til þess að geta hjálpað til og dæmt á mótum innan félagsins en þeir æfðu þá báðir handbolta með Keflavík.
„Þeir leikir sem við höfum ekki dæmt saman eru teljandi á fingrum beggja handa. Þegar ég hef kannski dottið út vegna meiðsla,“ segir Gísli sem var einnig um 25 ára skeið dómari í fótboltanum. Þar hætti hann fyrir níu árum. Nú liggja að baki 1.700 leikir í handboltanum og þúsundir kílómetra á ferðalögum um allan heim á þessum 34 árum sem þeir hafa dæmt. Saman hafa þeir dæmt sex bikarúrslitaleiki. Þeir hafa ferðast til Kína, Grikklands, Írlands og Bandaríkjanna og dæmt á Special Olympics.
„Þegar menn eru búnir að vera svona lengi í þessu saman þá skynja þeir alveg styrkleika og veikleika hvors annars og bökkum hvorn annan upp. Þegar svo kannski hefur verið mikið álag í vinnu eða í einkalífinu og svona þá vill maður stundum taka það með sér á völlinn. Þá er gott að vera með „makker“ sem maður getur rætt þá hluti við. Hinn skynjar þessa hluti þar sem við þekkjumst þetta vel,“ segir Hafsteinn. Þeir þekkja vel inn á hvorn annan á vellinum og nota mikið af sérstökum bendingum og táknmáli sem þeir einir þekkja.
Dómari í fremstu röð þarf að hafa sterk bein og þola gagnrýni og skrif um sig. Þeir Gísli og Hafsteinn hafa fyrir löngu brynjað sig frá hrópum og köllum áhorfenda en þeim þykir skemmtilegast að dæma leiki þar sem húsið er fullt og stemningin góð. „Það er fullt af góðu fólki í kringum handboltann, stuðningsmenn og annað sem maður veit að munu koma til með að sakna okkar,“ segir Gísli.
Sinna núna afahlutverkinu
Hafsteinn segir að dómarastörfin hafi gengið vel samhliða fjölskyldulífinu. „Fjölskyldan þekkir ekkert annað. Við höfum verið að síðan við vorum 17 ára í fremstu röð og þetta hefur alltaf verið hluti af vetrardagskránni,“ segir Gísli. Þegar síðasta tímabil kláraðist í vor þá vissu þeir ekki að sá leikur yrði þeirra síðasti. „Við erum báðir orðnir afar. Það er kominn tími til þess að fara að sinna barnabörnum og svona, það hefur ýmislegt breyst,“ segir Hafsteinn.
Nú þegar þeir eru hættir dómarastörfum þá er óneitanlega mikill frítími og tómarúm sem skapast. Haldin var dómararáðstefna í Reykjanesbæ síðustu helgi þar sem þeir voru mikið spurðir að því hvað þeir ætluðu nú að fara að gera. „Þið verðið að finna ykkur eitthvað annað,“ hefur maður heyrt frá sumum. „Það þýðir ekkert að vera að hanga hjá konunni öll kvöld,“ segja aðrir,“ segir Hafsteinn og skellir upp úr. Þeir hafa báðir velt því fyrir sér að fara að stunda golf.
Það hefur ekki slest upp á vinskapinn á þessum 34 árum en auðvitað eru þeir ekki alltaf sammála. Þeir störfuðu saman í Fríhöfninni hér áður fyrr og ráku svo Stapann um tveggja ára skeið. „Ég hefur stundum grínast með það að maður hefur verið meira með Gísla en konunni,“ og þeir hlæja báðir. „Það er stundum sagt þegar maður kemur einhvers staðar einn, „hvar er Hafsteinn?“ það er ekkert verið að spyrja um konuna,“ bætir Gísli við.
„Við eigum oft mjög góðar stundir á Reykjanesbrautinni þar sem við förum yfir leikinn sem við vorum að dæma. Það er mjög dýrmætur tími og nýtist okkur oft vel,“ segja þeir félagar.