Víðissigur í fyrsta leik
Víðismenn höfður betur þegar þeir tóku á móti Hvíta riddaranum í fyrstu umferð 3. deildar karla í knattspyrnu sem hófst í gær. Víðismenn skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik en gestirnir svöruðu með einu í þeim seinni.
Tómas Leó Ásgeirsson kom Víðismönnum yfir á 21. mínútu og Jón Gunnar Sæmundsson tvöfaldaði forystuna á þeirri 36. Sasha Uriel Litwin Romero bætti þriðja markinu við undir lok fyrri hálfleiks og staðan því vænleg í hálfleik, 3:0 fyrir heimamenn.
Víðismenn gáfu örlítið eftir í seinni hálfleik en sköpuðu sér þó nokkur færi sem hefði mátt nýta betur. Gestirnir minnkuðu muninn skömmu fyrir leikslok þegar misskilningur varð á milli þeirra Joaquin Ketlun Sinigaglia, markvarðar Víðis, og varnarmannsins Bessa Jóhannssonar sem varð til þess að Bessi rak knöttin í eigið mark. Við það vaknaði smá vonarglæta hjá leikmönnum Hvíta riddarans og þeir tvíefldust en misstu skömmu síðar mann af velli eftir brot þegar Romero var við það að komast í gegnum vörnina, lengra komust Riddararnir ekki og Víðir hefur Íslandsmótið á góðum sigri.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, kíkti á Nesfisk-völlinn í Garði og tók meðfylgjandi myndir.