Víðismenn töpuðu fyrir Kórdrengjum
Víðir mætti toppliði Kórdrengja í 2. deild karla í knattspyrnu á Framvellinum í gær. Jafnræði var með liðunum framan af en það voru Kórdrengir sem reyndust sterkari aðilinn á endanum.
Eftir ágætis byrjun hjá Víðismönnum lentu þeir undir á 17. mínútu. Þeir tvíefldust við að fá mark á sig og sóttu stíft í kjölfarið, það var því eins og blaut tuska í andlitið þegar Kórdrengir skoruðu annað mark rétt fyrir leikhlé (45'+2) og staðan í hálfleik 2:0.
Ekkert gengur hjá Víði
Ekki var langt liðið á seinni hálfleik þegar Kórdrengir komust í 3:0 (50') en skömmu síðar fengu Víðismenn dæmda vítaspyrnu. Allt virðist ganga Víði í óhag þessa dagana og vítaspyrnan alveg lýsandi fyrir það því markvörður Kórdrengja gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna – ekki einu sinni heldur tvisvar því markvörðurinn hafði stigið af línunni í fyrri spyrnunni og dómarinn lét því endurtaka hana.
Á 82. mínútu náði Ísak John Ævarsson að minnka muninn fyrir Víði en lengra komust þeir ekki og Kórdrengir sigruðu 3:1.