Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Víðismenn settu fimm mörk á Þróttara
Föstudagur 5. ágúst 2011 kl. 17:43

Víðismenn settu fimm mörk á Þróttara

Víðismenn lögðu Þróttara frá Vogum í grannaslag 3. deildarinnar í knattspyrnu karla í gær 5-1 á heimavelli sínum.

Víðismenn byrjuðu betur og komust í 2-0 eftir einungis stundarfjórðungs leik. Þeir Einar Sigurðsson og Eiríkur Viljar Kúld sáu um að skora mörkin fyrir Garðbúa.

Eftir þessi mörk slökuðu heimamenn á klónni og hleyptu Vogamönnum inn í leikinn. Þróttarar náðu því að minnka muninn eftir hálftíma leik þegar Jón Ingi Skarphéðinsson, fyrrverandi leikmaður Víðis slapp inn fyrir vörn Víðis og vippaði laglega yfir markvörð Víðismanna. Staðan var því í hálfleik 2-1.

Í síðari hálfleik mættu Víðismenn ákveðnir til leiks og skoraði Einar Sigurðsson sitt annað mark þegar tæpar 5 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Eiríkur Viljar bætti svo öðru marki sínu við og því fjórða hjá Víðismönnum.

Björn Bergmann Vilhjálmsson setti svo punktinn yfir i-ið með fimmta marki Víðis úr vítaspyrnu og öruggur sigur heimamanna staðreynd.

Myndir/EJS: Að ofan má sjá Harald Axel Einarsson sem nýlega gekk til liðs við Víðismenn og á neðri myndinni skorar Jón Ingi fyrir Þróttara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024