Víðismenn sanka að sér leikmönnum
Víðismenn í Garði eru þegar byrjaðir að styrkja sig fyrir komandi átök í knattspyrnunni næsta sumar. Undanfarið hefur nýr þjálfari, Rafn Markús Vilbergsson verið að sanka að sér leikmönnum sem koma til með að styrkja liðið í baráttunni í 3. deild.
Víðir Garði hafnaði í 4. sæti 3. deildarinnar á liðnu tímabili en félagið hefur unnið í leikmannamálum síðustu daga og fyrir helgi skrifuðu nýir leikmenn undir samninga.
Ísak Örn Þórðarson kemur frá Keflavík. Ísak Örn sem fæddur er árið 1988 er uppalinn í Njarðvík. Hann hefur samtals spilað 80 leiki á Íslandsmóti og bikarkeppni fyrir Njarðvík, Hauka og Keflavík og skorað í þeim 11 mörk.
Gylfi Örn Á Öfjörð er kominn í Víði. Gylfi sem fæddur er árið 1994 er uppalinn í Grindavík. Hann spilaði alla sjö leiki Grindavíkur í Lengjubikarnum 2013. Sumarið 2013 spilaði hann 4 leiki á Íslandsmóti og bikarkeppni fyrir Njarðvík auk þess að spila með sameiginlegu liði Keflavíkur og Njarðvíkur í 2. flokki.
Garðmaðurinn Hörður Ingi Harðarson er kominn aftur í Víði. Hann lék síðast með Víði árið 2011. Hörður hefur spilað 92 leiki á Íslandsmóti og bikarkeppni fyrir Víði og skorað í þeim sjö mörk.
Þrír ungir leikmenn sem allir eru fæddir árið 1994 skrifuðu undir félagaskipti yfir í Víði á dögunum. Það eru þeir Aron Hlynur Ásgeirsson, Sigurður Þór Hallgrímsson og Tómas Jónsson. Allir fá þeir félagsskipti frá Njarðvík.
Frétt fótbolti.net.