Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Víðismenn í úrslit Fótbolti.net-bikarsins
Víðismenn fögnuðu innilega þegar flautað var til leiksloka. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 23. september 2023 kl. 17:16

Víðismenn í úrslit Fótbolti.net-bikarsins

Víðir sló 4. deildarlið KFK út í undanúrslitum Fótbolti.net-bikarsins sem var leikinn á Nesfiskvellinum í Garði í dag.

Heimamenn áttu í vandræðum með lið KFK í fyrri hálfleik og má segja að gestirnir hafi stjórnað leiknum algerlega. Þeir áttu lengst af í vandræðum með að komast að marki Víðis en á 32. mínútu var dæmt víti þegar brotið var á leikmanni KFK í teigi heimamanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Joaquin Ketlun Sinigaglia, markvörður Víðis, fór í vitlaust horn og gestirnir náðu forystu.

Áfram hélt sókn gestanna og það var gegn gangi leiksins þegar Víðismenn sóttu hratt og eftir smá vandræðagang fyrir framan mark gestanna kom sending á fjærstöng sem Aron Freyr Róbertsson náði góðum skalla framhjá markverði KFK og í fjærhornið (41').

Aron jafnar leikinn úr þröngu færi.

Mörk breyta leikjum og Víðismenn gengu fullir sjálfstrausts til seinni hálfleiks. Það var allt annað að sjá til heimamanna í seinni hálfleik sem tóku leikinn yfir. Á 76. mínútu sóttu þeir, Tómas Leó Ásgeirsson lék inn í teiginn og gaf fyrir á Aron sem reyndi skot en það fór af varnarmanni og út úr teignum. Þar kom Paolo Gratton aðvífandi og hamraði boltannn viðstöðulaust í netið, óverjandi fyrir markvörð KFK og Víðir komið yfir.

Sinigaglia kýlir fyrirgjöf úr aukaspyrnu frá markinu seint í leiknum.

Gestirnir reyndu hvað þeir gátu að jafna og settu pressu á vörn Víðis en heimamenn sýndu hörku í vörninni og sigurinn var aldrei í neinni hættu.

Víðismenn mæta KFG, sem vann KFA 1:0 í hinum undanúrslitaleiknum, í úrslitaleik sem verður leikinn á Laugardalsvelli næstkomandi föstudag.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fylgdist með leiknum í dag og má sjá svipmyndir í myndasafni neðst á síðunni.

Víðir - KFK (2:1) | Undanúrslit Fótbolti.net-bikarsins 23. september 2023