Víðismenn fyrstir til að vinna Fótbolti.net-bikarinn
„Víðir á bestu stuðningsmenn á landinu“
Það var mikið um dýrðir á Laugardalsvelli í gær þegar Víðir og KFG kepptu til úrslita í Fótbolti.net-bikarnum í knattspyrnu. Mikill fjöldi stuðningsmanna beggja liða skapaði frábæra stemmningu og eftir jafnan og spennandi leik voru það Víðismenn sem stóðu uppi sem sigurvegarar og urðu fyrstir til að lyfta bikarnum sem keppt var um í fyrsta sinn í ár.
Til að byrja með var 2. deildarlið KFG með örlítið betri stjórn á leiknum en Víðismenn unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn. Eftir rúmlega tuttugu mínútna leik dró til tíðinda. Þá náðu Garðbæingar fínni skyndisókn en fyrst varði góður markvörður Víðis, Joaquin Ketlun Sinigaglia, skot frá sóknarmanni, boltinn barst fyrir markið þar sem annar Garðbæingur náði hörkuskoti en Björn Aron Björnsson komst fyrir skotið á marklínu og sluppu Víðismenn með skrekkinn.
Áfram hélt sókn KFG og aðeins mínútu síðar leit fyrsta markið dagsins ljós þegar þeir þræddu sendingu í gegnum vörn Víðis og Ólafur Bjarni Hákonarson afgreiddi boltann í fjærhornið án þessa að Sinigaglia kæmi vörnum við (21').
Fyrri hálfleikur snerist mikið hjá báðum liðum um að ná tökum á leiknum og Garðbæingar höfðu yfirhöndina þar, KFG náði að skapa sér nokkur álitleg hálffæri og gáfu Víðismönnum ekki mikil færi á sér.
Skömmu áður en fyrri hálfleikur var liðinn var Tómas Leó Ásgeirsson við það að komast í gegnum vörn KFG en var felldur inni í vítateig andstæðinganna og umsvifalaust dæmd vítaspyrna. Tómas fór á punktinn og skoraði af öryggi til að jafna í 1:1 (41').
Víðismenn mættu tvíefldis til seinni hálfleiks og sóttu töluvert meira á Garðbæinga en í fyrri hálfleik. Besta færið í seinni hálfleik kom þegar Björn Aron vann boltann á hægri kanti, brunaði upp og sendi hættulega sendingu fyrir mark KFG þar sem Paulo Gratton renndi sér í boltann en var hársbreidd frá því að ná honum fyrir galopnu marki.
Elís Már Gunnarsson varð svo hetja Garðmanna þegar Helgi Þór Jónsson sendi frábæra sendingu íinn fyrir vörn KFG þar sem Elís renndi sér og náði góðu skoti framhjá markverði KFG (88').
Garðbæingar settu allt púður í að jafna á síðustu mínútunum en vörn Víðis var þétt og stóð allar sóknir KFG af sér. Mikill fögnuður braust út þegar lokaflautan gall og Víðismenn fyrstu bikarmeistarar neðri deilda í knattspyrnu.
Bestu stuðningsmenn á Íslandi
Það var vel mætt af stuðningsmönnum Víðis á leikinn sem létu vel í sér heyra. Gunnar Birgisson, stuðningsmaður Víðis númer eitt, sagði í viðtali við Víkurfréttir eftir leikinn að þetta væru bestu stuðningsmenn á landinu en viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan. Þar er sætt við Svein Þór Steingrímsson, þjálfara Víðis, Helga Þór Jónsson, leikmann Víðis og Gunnar. Þá er einnig upptaka af fagnaðarlátum Víðis eftir leik.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttamaður Víkurfrétta, var á Laugardalsvelli og má myndasafn frá leiknum neðst á síðunni.