Víðismenn fallnir – Stórtap hjá Reyni
Lið Reynis Sandgerði í 2. deild karla í knattpyrnu steinlá á heimavelli í næst síðasta leik sínum á tímabilinu gegn BÍ/Bolungarvík á laugardaginn. Gestirnir hreinlega völtuðu fyrir heimamenn með 10 mörkum gegn fjórum.
Reynismenn leika áfram í 2. deildinni á næsta keppnistímabili en þeir eru í sjötta sæti deildarinnar og eiga einn leik eftir.
Í Garði voru menn heldur niðurlútir eftir 3-1 ósigur gegn toppliði Víkings frá Ólafsfirði. Þar með var ljóst að lið Víðis var fallið í þriðju deild. Í allt sumar var á brattann að sækja fyrir Víðismenn. Skipt var um þjálfara hjá liðinu en það dugði ekki til að bjarga því frá falli.
Víðismenn eiga einn leik eftir í deildinni en hann verður leikinn á laugardaginn í Garði þegar botnlið KV kemur í heimsókn.