Víðir vann heima: Adolf kláraði Grindavík
Suðurnesjaliðin Víðir Garði og Grindavík léku mikilvæga leiki í sínum deildum í knattspyrnu í dag. Víðismenn tóku á móti Hamri í undanúrslitum 3. deildar og höfðu þar góðan 3-0 sigur sem setur þá í bílstjórastólinn fyrir síðari leik liðanna á þriðjudag en hann fer fram á Grýluvelli í Hveragerði kl. 17:30.
Grindvíkingar máttu sætta sig við að missa toppsætið í 1. deild þegar þeir lágu 3-1 gegn Þrótti Reykjavík á Valbjarnarvelli í dag. Paul McShane kom gulum í 1-0 þegar skammt var liðið af síðari hálfleik en heimamenn gerðu næstu þrjú mörk. Magnús Már Lúðvíksson jafnaði metin í 1-1 en Adolf Sveinsson gerði tvö mörk á lokamínútum leiksins. Adolf kom Þrótti í 2-1 á 90. mínútu og bætti sínu öðru mark við og þriðja marki Þróttar á 94. mínútu. Grindvíkingar eru því í 2. sæti með 41 stig en Þróttur er á toppi deildarinnar með 43 stig.
Víðismenn hafa þegar tryggt sig upp í 2. deild en bæði leikmenn og þjálfari liðsins hafa gefið það út að ekkert annað komi til greina en að vinna 3. deild. Ef Garðmönnum tekst að klára Hamar á þriðjudag mæta þeir annað hvort Gróttu eða Hvöt en Grótta hefur 3-1 yfir í hinu undanúrslitaeinvíginu.
VF-mynd/ [email protected] - Frá leik Víðis og Tindastóls á dögunum.