Víðir tapar á heimavelli
Víðismenn töpuðu illa á heimavelli gegn Leiftri/Dalvík á föstudaginn, 1-4, í 2. deildinni.
Allt gekk á afturfótunum hjá Garðsmönnum sem voru lánlausir við mark gestanna. Leiftur/Dalvík komst yfir á 42. mínútu og stóðu leikar þannig í hálfleik.
Á 69. mín fékk Víðir vítaspyrnu sem Rafn Markús Vilbergsson skoraði úr af öryggi. Staðan var því jöfn, 1-1, og lyftist brúnin á heimamönnum sem vonuðust til þess að lukkan hefði snúist á þeirra band.
Hins vegar hrundi leikur þeirra algerlega og segir m.a. á heimasíðu félagsins að síðasti kafli leiksins hafi verið eins og í svæsinni lygasögu. Norðlendingar settu þrjú mörk á rúmum 10 mínútum og gerðu út um leikinn.
Víðismenn, sem hafa ekki haft sigur í síðustu fjórum leikjum, eru eftir leikinn í 5. sæti 2. deildarinnar og virðast vera að missa af efstu liðunum.