Víðir sigraði á heimavelli og Þróttarar með sannfærandi sigur
Víðir sigraði 2:1 á Fjarðabyggð á heimavelli sínum í Garðinum í gær í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Nágrannar þeirra úr Vogum, Þróttarar náðu í sigur á Egilsstöðum.
Það var fjör í leiknum í Garði. Marinó Máni Atlason og Dejan Stamenkovic fengu báðir beint rautt spjald á 32. mínútu og léku því tíu í hvoru liði í um klukkutíma. Andri Gíslason kom Víði yfir á 32. mínútu og Aleksandar Stojkovic jafnaði úr víti á 55. mínútu. Mehdi Hadraoui átti hins vegar lokaorðið á 72. mínútu er hann tryggði Víði sigurinn. Víðismenn eru að sigla út úr mestu fallhættunni.
Á Egilsstöðum vann Þróttur Vogum 3:1-sigur á Hetti. Örn Rúnar Magnússon kom Þrótti yfir á 32. mínútu og Ragnar Þór Gunnarsson og Enok Eiðsson skoruðu tvö mörk sitt hvoru megin við hálfleikinn og komu Þrótti í 3:0. Miroslav Babic minnkaði muninn fyrir Hött á 89. mínútu úr vítaspyrnu. Þróttarar sigla lygnan sjó um miðja deild á sínu fyrsta ári í 2. deild.