Víðir og Þróttur í efri hlutanum
Veik von Víðis um að fara upp lifir enn eftir 4:0-sigur á Fjarðabyggð á heimavelli í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Gamla kempan Hólmar Örn Rúnarsson, þjálfari liðsins, skoraði tvö mörk fyrir Víði og Helgi Þór Jónsson og Atli Freyr Ottesen Pálsson skoruðu einnig.
Þá gerðu ÍR og Þróttur Vogum 1:1 jafntefli í Breiðholtinu. Alexander Kostic kom ÍR yfir strax á 2. mínútu en liðsfélagi hans, Stefnir Stefánsson, fékk beint rautt spjald á 45. mínútu. Þróttarar nýttu sér liðsmuninn og Alexander Helgason jafnaði á 57. mínútu og þar við sat.