Víðir með sigur í sínum riðli
Víðismenn hafa tryggt sér sigur í B-riðli 3. deildar í knattspyrnu eftir 2-1 sigur gegn Augnablik í gærkvöldi. Ein umferð er eftir í riðlinum en leikur gærkvöldsins var sá síðasti á heimavelli hjá Víðismönnum í bili. Að lokinni næstu umferð tekur við úrslitakeppni í 3. deildinni.
Gestirnir úr Augnablik komust í 1-0 í gærkvöldi á 44. mínútu með marki úr vítaspyrnu og þannig var staðan í hálfleik. Sigurður Markús Grétarsson jafnaði í metin í 1-1 á 57. mínútu og Björn Bergmann Vilhjálmsson gerði sigurmark leiksins á 73. mínútu.
Víðir er í toppsæti riðilsins með 33 stig eftir 13 leiki og hafa þeir gert 59 mörk til þessa og aðeins fengið á sig 11. Þeir hafa unnið 11 leiki og tapað tveimur. Síðasti leikur liðsins fer fram á Gervigrasinu í Laugardal þegar Víðir heimsækir botnlið Afríku laugardaginn 18. ágúst næstkomandi. Leikurinn hefst kl. 14:00.
Liðsmenn GG nældu sér í góðan útisigur gegn KV í gær með 2-3 sigri á KR-velli í Vesturbænum. Með sigrinum eru GG menn komnir með 19 stig í 5. sæti riðilsins en eiga ekki kost á því að komast í úrslitakeppnina þetta árið.