Víðir fær Völsung í heimsókn í átta liða úrslitum
Víðismenn unnu lið Hvíta riddarans í Fótbolta.net-bikarnum í knattspyrnu á Nesfiskvellinum í gær með fimm mörkum gegn einu í sextán liða úrslitum. Víðir sat hjá í fyrstu umferð bikarkeppninnar og tekur á móti 2. deildarliði Völsungs í átta liða úrslitum á heimavelli sínum þann 8. ágúst en dregið var í hádeginu í dag.
Víðir - Hvíti riddarinn (5:1)
Fyrri hálfleikur var frekar jafn en það voru þó Víðismenn sem komust yfir með marki Ísaks John Ævarssonar (10'). Gestirnir fengu sín færi en vörn Víðis sá til þess að þeir kæmu boltanu ekki alla leið þótt stundum væri talsverð pressa að marki Víðis. Víðir leiddi því með einu marki gegn engu í hálfleik en Sveinn Þór Steingrímsson, þjálfari Víðismanna, sagði eftir leikinn að hann hefði notað fyrri hálfleik til að prófa menn í nýjum stöðum og það hafi haft áhrif á leik liðsins.
Víðismenn skiptu því yfir í sína vanalegu taktík í seinni hálfleik og tóku öll völd á vellinum. Atli Freyr Ottesen Pálsson tvöfaldaði forystu Víðis á 553. mínútu og ekki löngu síðar skoraði hann aftur (62').
Elís Már Gunnarsson skoraði svo fjórða mark Víðismanna á 66. mínútu en eitthvað gleymdu heimamenn sér í gleðinni og Hvítu riddararnir minnkuðu muninn fimm mínútum síðar (71').
Víðir fór því aftur í sóknarham og Cristovao A. F. Da S. Martins skoraði með skalla fimmta og síðasta mark Víðismanna. Tiltölulega auðveldur sigur heimamanna sem eru því komnir áfram í bikarkeppni Fótbolta.net.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Nesfiskvellinum og tók meðfylgjandi myndir sem eru í myndasafni neðst á síðunni.