„Víðir á stóran hluta í mínu hjarta“
Keflavík og Víðir mætast í bikarnum - fótboltinn að byrja
Það verður áhugaverður Suðurnesjaslagur í bikarkeppninni í fótbolta á föstudaginn, en þar mætast Keflavík og Víðir á Nettóvellinum í 64 liða úrslitum. Síðast áttust liðin við í bikarnum árið 1986 á Garðsvelli en þar fóru Keflvíkingar með 0-1 sigur af hólmi því eiga Víðismenn harma að hefna.
Jóhann Birnir Guðmundsson er uppalinn Víðismaður en hann hefur leikið með Keflvíkingum meira og minna frá árinu 1994, fyrir utan árin sem hann var í atvinnumennsku. Jóhann ber sterkar taugar til uppeldisfélagsins og fyrir tímabilið var hann næstum farinn aftur á heimaslóðir. „Það kom vel til greina að taka þetta tímabil með Víði en ég ákvað að vera áfram í Keflavík. Við ræddum saman og það er gaman að sjá hve vel er staðið að öllu í Garðinum og ég er stoltur af mínu gamla félagi.“
Hefur aldrei spilað gegn Víðismönnum
„Ég hef aldrei spilað á móti Víði,“ segir hinn 39 ára gamli Jóhann og viðurkennir að tilfinningin sé skrýtin. „Þetta er félag sem mér þykir ofsalega vænt um og á stóran hluta í mínu hjarta. Ég er mjög mikill Víðismaður og fylgist vel með. Mér þykir vænt um fólkið í Garðinum enda þekkir maður þar nánast alla.“
Nettóvöllurinn er í frábæru standi en veðurguðirnir hafa hugsað sér að bjóða upp á blástur og vætu. „Er það ekki bara viðeigandi þegar þessi lið mætast? Ég trúi þó ekki að fólk láti það aftra sér að mæta á völlinn,“ segir Jóhann en hann telur að Keflvíkingar vanmeti ekki andstæðinga sína sem unnu sér sæti í 2. deild í fyrra.
„Við berum virðingu fyrir Víðismönnum og þekkjum vel til þeirra. Þeir eru engin lömb að leika sér við og koma dýrvitlausir til leiks. Það getur verið erfiðara að vera stóra liðið í svona leik. Það er annars bara tilhlökkun að byrja að spila og mæta Víði.“
Jóhann í Víðisbúning á árum áður. (fyrir miðju niðri)
Grétar Einarsson Víðismaður og Kjartan Einarsson Keflvíkingum kljást um boltann.
Ein gömul og góð úr Garðinum þegar liðin áttust við. Gott ef Víðismenn eru ekki að skora hjá Steina Bjarna.