Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Íþróttir

Video: Keflavík mistókst að tryggja sér titlinn
Sunnudagur 21. september 2008 kl. 20:28

Video: Keflavík mistókst að tryggja sér titlinn

Keflvíkingum mistókst að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn eftir að hafa beðið ósigur gegn bikarmeisturum FH í Landsbankadeild karla í kvöld. Fyrir leik liðanna dugði Keflvíkingum jantefli til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn, en ekki tókst að innbyrða hann að þessu sinni.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25


FH byrjaði betur í leiknum og var Tryggvi Guðmundsson ekki langt frá því að koma heimamönnum yfir strax í upphafi leiks. Guðjón Árni Antoníusson tókst hins vegar að bjarga Keflvíkingum. Liðin sóttu á víxl eftir þetta án þess þó að skapa sér nein teljandi færi.


Fyrsta alvöru færi gestanna úr Keflvík leit dagsins ljós á 20. mínútu þegar Patrik Redo komst einn í gegnum vörn FH. Hann renndi boltanum hins vegar naumlega framhjá úr algjöru dauðafæri. Við þetta kviknaði meira líf í Keflvíkingum sem sóttu meira en heimamenn og voru oft á tíðum nálægt því að koma sér í góð markfæri. Fjölmargir áhorfendur þurftu hins vegar að sætta sig við markalausan fyrri hálfleik.


Seinni hálfleikurinn bauð upp á mikla veislu. FH sótti án afláts í byrjun seinni hálfleiks og uppskar gott mark á 58. mínútu. Eftir hornspyrnu rataði boltinn til Ásgeirs Gunnars Ásgeirssonar sem lét vaða á markið og boltinn saug í netinu við mikinn fögnuð heimamanna.


Keflvíkingar virtust slegnir út af laginu við markið því FH hélt áfram að sækja, en þeir dökkklæddu úr Bíltabænum áttu í miklum erfiðleikum með að halda boltanum á milli sín. Það var í samkvæmt gangi leiksins þegar að Atli Viðar Björnsson kom FH í 2-0 á 68. mínútu. Hann fékk boltann við vítateigslínu Keflvíkur og skot hans fór af varnarmanni Keflavíkur og í netið. Staðan orðin vænleg fyrir heimamenn og fátt sem benti til þess að Keflvíkingar væru að fara að ná stigi í Kaplakrikanum.


Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var ekki lengi að gera breytingar á sínu liði eftir seinna mark FH. Hann setti inn Magnús Sverri Þorsteinsson, sem var ekki lengi að stimpla sig inn í leikinn. Við innkomu hans færðist aukið líf í sóknarleik Keflvíkinga og hann minnkaði munninn fyrir Keflvíkinga á 77. mínútu með góðu skoti eftir að boltinn hrökk til hans.


Magnús var ekki hættur því fjórum mínútum síðar sólaði hann sig í gegnum varnarmenn FH og jafnaði leikinn með góðu marki. Allt ætlaði um koll að keyra hjá stuðningsmönnum Keflvíkur enda titilinn í augnsýn. FH setti við jöfnunarmark Keflavíkur, allt kapp á sóknarleikinn og voru Keflvíkingar hvað eftir annað stálheppnir að fá ekki á sig mark. Keflvíkingar fengu hins vegar ekki að fagna Íslandsmeistaratitlinum í kvöld því Atli Viðar Björnsson skoraði sigurmark heimamanna í uppbótartíma eftir góða sendingu frá Tryggva Guðmundssyni.



Gríðarlegt svekkelsi fyrir gestina úr Keflavík sem höfðu komist aftur inn í tapaðan leik. Keflvíkingar eiga erfiðan heimaleik gegn Fram í lokaumferðinni um næstu helgi. FH er hins vegar fimm stigum á eftir Keflavík og eiga enn eftir að leika tvo leiki. FH þarf að vinna báða sína leiki til að eiga möguleika á titlinum og treysta á að Keflavík misstígi sig gegn Fram á heimavelli.


Staðan í Landsbankadeildinni


VF-MYNDIR/JJK

Sjá einnig video í Vefsjónvarpi Víkurfrétta hér á vf.is