Video: Kaflaskipt jafntefli
Keflavík og Grindavík skildu jöfn 1-1 í nágrannaslagnum sem fram fór s.l. miðvikudagskvöld. Fjörugur fyrri hálfleikur varð að hrotuhátíð í þeim seinni en Keflvíkingar lokuðu vel á allar sóknaraðgerðir Grindvíkinga. Eitt stig á hvort lið varð því uppskeran og eru Grindvíkingar í 5. sæti deildarinnar og Keflvíkingar í því sjötta og bæði lið með 6 stig.
Ray Jónsson lék ekki með Grindavík í leiknum en bróðir hans Michael leysti vinstri bakvarðarstöðuna. Þá var Sinisa Kekic kominn í fremstu víglínu en hann var í öftustu varnarlínu gegn Fylki í 2. umferð. Hjá Keflavík var Badui Farah fjarri góðu gamni sökum meiðsla og því var Baldur Sigurðsson kominn í miðvarðarstöðuna við hliðina á Guðmundi Mete.
Grindvíkingar voru sprækir í upphafi leiks og strax á 10. mínútu fengu þeir dæmda heldur vafasama vítaspyrnu á Keflavík. Þá virtist sem Baldur Sigurðsson hefði brotið á Jóhanni Þórhallssyni og fékk hann gult spjald fyrir vikið. Hér að neðan má sjá atvikið þar sem Jóhann fellur í teignum.
Jóhann tók sjálfur vítaspyrnuna en skaut í slána og Keflvíkingar önduðu léttar. Eftir vítaspyrnuna hljóp nokkuð kapp í kinnar Keflvíkinga og skiptust liðin á því að eiga fínar sóknir.
Á 32. mínútu gerði Jóhann það sem honum tókst ekki á 10. mínútu og kom boltanum fram hjá Ómari Jóhannssyni í Keflavíkurmarkinu og staðan því 1-0 Grindavík í vil og Jóhann kominn með fjögur mörk í deildinni.
Adam var ekki lengi í Paradís þar sem Kristinn Jakobsson, dómari leiksins, dæmdi víti á Grindvíkinga og Guðmundur Steinarsson tók spyrnuna af miklu öryggi og jafnaði metin 1-1 og þar við sat í hálfleik.
Í síðari hálfleik settu Keflvíkingar í lás í vörninni og illa gekk hjá Grindvíkingum að sækja að marki gestanna þrátt fyrir kröftugan meðbyr frá veðurguðunum. Sóknarleikur Keflavíkur var lítill sem enginn og því mættust liðin í hálfgerðu miðjumoði sem var tilþrifalítið fyrir áhorfendur sem höfðu gert sér vonir um sannan grannaslag en hefðu verið betur settir með minninguna um fyrri hálfleikinn.
Helstu tíðindin af síðari hálfleik voru þau að varamennirnir Stefán Örn (Keflavík) og Eyþór Atli (Grindavík) fengu að líta rautt spjald eftir að hafa verið aðeins inni á leikvellinum í um 5 mínútur. Lenti þeim kumpánum eitthvað saman og sá Kristinn Jakobsson þann leikinn vænstan að senda þá í sturtu.
Næsti leikur Grindvíkinga er gegn Breiðablik á útivelli kl. 19:15 en Keflvíkingar fá KR í heimsókn á sunnudag og hefst leikurinn kl. 19:15.
Hér má sjá viðtöl eftir leikinn við Kristján Guðmundsson og Jóhann Þórhallsson.
VF-myndir/Jón Björn